Eftir Sunnu Ósk Logadóttur sunna@mbl.is "VIÐ vorum bara í rólegheitunum í vinnunni og á leiðinni í sumarbústað. En svo breyttist allt, okkur var sagt að eitthvað mikið væri að barninu okkar.

Eftir Sunnu Ósk Logadóttur

sunna@mbl.is

"VIÐ vorum bara í rólegheitunum í vinnunni og á leiðinni í sumarbústað. En svo breyttist allt, okkur var sagt að eitthvað mikið væri að barninu okkar."

Með þeim orðun lýsir Elfa Hrönn Valdimarsdóttir því þegar hún og maður hennar, Freyr Friðriksson, fengu þær fréttir að tæplega tveggja ára sonur þeirra, Tjörvi, væri með eitt alvarlegasta krabbamein sem greinist í börnum, taugakímsæxli sem dreifði sér hratt um líkamann. "Maður heldur einfaldlega að barnið manns sé að deyja þegar maður heyrir orðið krabbamein," segir Elfa. "Síðan tók við hörð og erfið meðferð sem Tjörvi þoldi sem betur fer mjög vel."

Freyr tekur í sama streng. "Þegar maður heyrir orðið krabbamein þá virðist ekkert nema dauðinn framundan. En samt sem áður fengum við strax mikla von og það eigum við m.a. læknunum og hjúkrunarfræðingunum á Barnaspítalanum að þakka."

Tjörvi er nú á góðum batavegi og kom fjölskyldan heim frá Svíþjóð í síðustu viku. Foreldrarnir blogguðu allan tímann um erfiða meðferð sonarins en í skrifunum kveður þó við bjartsýnistón. "Maður verður bara að trúa," segir Elfa spurð um þetta. "Það væri ómögulegt að komast í gegnum svona lífsreynslu án þess að hafa góða von." | 22–23