Allt bendir til að gosdrykkja sé lítið að minnka milli ára en að grænmetis- og ávaxtaneysla hafi aukist á síðustu árum. Vísbendingar um þetta má lesa út úr fæðuframboðstölum á vef Lýðheilsustöðvar. Silja Björk Huldudóttir rýndi í tölurnar.

ÁVAXTA- og grænmetisneysla landsmanna virðist aukast á árunum 2002–2005 sem og neysla skyrdrykkja á meðan gosneysla virðist lítið vera að minnka. Þetta má lesa út úr fæðuframboðstölum sem nálgast má á vef Lýðsheilsustöðvar og nær yfir árin 1956 til 2005.

Fæðuframboðstölur veita upplýsingar um það magn matvara sem er á boðstólum fyrir þjóðina ár hvert. Þess ber raunar að geta að fæðuframboð veitir ekki fullnægjandi upplýsingar um raunverulega neyslu, þótt það geti veitt gagnlegar upplýsingar um þróun mataræðis þjóðarinnar til lengri tíma litið.

Von á næstu landskönnun á mataræði árið 2008

Síðasta landskönnun á mataræði landsmanna var framkvæmd árið 2002, en fyrsta neyslukönnun var framkvæmd árið 1990. Í landskönnuninni frá árinu 2002 kom fram að mataræði Íslendinga hefði að mörgu leyti gjörbreyst frá árinu 1990. Þannig mátti t.d. sjá að mjólkur-, fisk- og kartöfluneysla minnkaði milli áranna á meðan neysla á gosdrykkjum, vatni, grænmeti, ávöxtun, brauði, morgunkorni og pasta jókst milli kannana.

Hjá Elvu Gísladóttur, verkefnisstjóra næringar hjá Lýðheilsustöð, fengust þær upplýsingar að þar væri nú unnið að undirbúningi landskönnunar á mataræði sem stefnt væri að að yrði framkvæmd árið 2008. Aðspurð segir hún æskilegt að ekki líði nema 4–5 ár á milli kannana, þar sem niðurstöður neyslukannana gefi mikilvægar upplýsingar um stöðuna á hverjum tíma sem svo aftur sé forsenda þess að menn viti hvernig bregðast eigi við. Bendir hún á að fagsvið næringar á Lýðheilsustöð setji sér markmið út frá því hvernig mataræðið þróist.

"Núna er mikil áhersla lögð á að auka fiskneyslu með bæklingnum Borðum meiri fisk! auka neyslu á grænmeti og ávöxtum, minnka neyslu á sykri, harðri fitu og salti. Þetta er allt í beinu samhengi við niðurstöður úr landskönnun frá árinu 2002." Spurð hvers vegna jafn langt hafi liðið milli kannana og raun ber vitni segir Elva að verkið sé stórt og kostnaðarsamt eftir því.

Í hnotskurn
» Fæðuframboðstölur samanstanda af framleiðslu og innflutningi að frátöldum útflutningi og öðrum notum, t.d. dýrafóðri.
» Í fæðuframboðstölum er ekki tekið tilllit til rýrnunar sem á sér stað frá framleiðslu og þar til fæðan kemur inn á heimilin né rýrnunar á heimilum.
» Fæðuframboðstölur veita upplýsingar um það magn matvara sem er á boðstólum fyrir þjóðina ár hvert.

silja@mbl.is

Höf.: silja@mbl.is