HÆSTIRÉTTUR hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurði héraðsdóms yfir tveimur sakborningum í stóru fíkniefnamáli sem varðar tilraun til smygls á 3,7 kg af kókaíni til landsins, auk 36 g af amfetamíni. Varir gæslan til 11. maí.
Tollverðir fundu fíkniefnin í bíl á hafnarsvæði Samskipa í Reykjavík en bíllinn hafði þá nýlega verið fluttur til landsins frá Þýskalandi. Lögregla kom gerviefnum fyrir í bílnum og fylgdist með honum. Hinn 6. febrúar var bíllinn leystur úr tollgeymslu vöruafgreiðslu Samskipa og leiddi rannsókn málsins til þess að hinir grunuðu voru handteknir 1. mars og úrskurðaðir í gæsluvarðhald.