Þórir Haraldsson
Þórir Haraldsson
Fyrirtækið Lífland hf. hefur í samstarfi við bændur sem og innlenda og erlenda sérfræðinga og fóðurframleiðendur þróað tvær nýjar tegundir kjarnfóðurs.

Fyrirtækið Lífland hf. hefur í samstarfi við bændur sem og innlenda og erlenda sérfræðinga og fóðurframleiðendur þróað tvær nýjar tegundir kjarnfóðurs.

Að sögn Þóris Haraldssonar hjá Líflandi er þetta gert til að bændur hér á landi hafi úr meira úrvali að velja við fóðrun nautgripa, en einnig muni þeir bjóða upp á verð sem er á bilinu 10–20% lægra en nú þekkist. Það fóður sem um ræðir inniheldur ekki fiskimjöl, en það hefur verið notað í fóður hingað til á Íslandi. Fiskimjöl hefur hækkað í verði að undanförnu. Kílóverð á fóðri sem inniheldur 19–20% prótín er nú, að sögn Þóris, 44,8 krónur en hið nýja fóður mun, eins og áður sagði, vera 10–20% ódýrara.

Við þróun fóðursins var stuðst við upplýsingar úr heysýnum síðasta sumars þannig að samsetning fóðursins hæfði því gróffóðri sem núna væri boðið upp á. Þórir bendir á að víða erlendis sé bannað að nota fiskimjöl í fóðurgerð og nefnir Danmörku og Holland í því sambandi. Hann segir að með þessu móti ætti samkeppnishæfni íslenskra bænda að batna sem svo skilaði sér í bættu verði til neytenda.