Muna að standa upp Löng kyrrseta við skrifborð getur haft geigvænlegar afleiðingar.
Muna að standa upp Löng kyrrseta við skrifborð getur haft geigvænlegar afleiðingar. — Morgunblaðið/Golli
ÞEIR starfsmenn sem eyða miklum tíma við skrifborðið gætu með því verið að setja sig í lífshættu, að því er ný rannsókn sýnir. Frá þessu er sagt á fréttavef BBC .

ÞEIR starfsmenn sem eyða miklum tíma við skrifborðið gætu með því verið að setja sig í lífshættu, að því er ný rannsókn sýnir. Frá þessu er sagt á fréttavef BBC .

Læknisfræðilega rannsóknastofnunin á Nýja-Sjálandi komst að því að slíkir starfsmenn gætu frekar átt á hættu að fá lífshættulegan blóðtappa. Vísindamennirnir uppgötvuðu að þriðjungur sjúklinga sem lagðir voru á sjúkrahús með blóðtappa var skrifstofufólk sem sat tímunum saman við tölvuna.

Algengast er að blóðtappi myndist í fótleggjum og þaðan getur hann losnað og borist til hjartans, lungnanna eða heilans og valdið þannig brjóstverkjum, andþrengslum eða jafnvel dauða vegna hjartaáfalls eða heilablóðfalls.

Sjúkdómur þessi hefur verið kallaður "almenna farþegarýmis-ástandið" vegna þess að flugfarþegar sem sitja lengi í þröngu rýminu án möguleika á að teygja úr sér hafa löngum verið taldir stærsti áhættuhópurinn.

Nýsjálenski rannsóknarhópurinn skoðaði 62 manneskjur sem lagðar voru inn á sjúkrahús vegna blóðtappa og niðurstaðan var að 34% innlagðra höfðu setið löngum stundum við skrifborðið. 21% hafði nýlega ferðast langar leiðir flugleiðis. Reyndar viðurkenndu vísindamennirnir að mun fleiri sitja lengi við skrifborð en ferðast langt flugleiðis.

Prófessor Richard Beasley stýrði rannsókninni. Hann sagði að sumir skrifstofumannanna sem fengið höfðu blóðtappa hefðu setið í allt að 14 stundir daglega við skrifborð. "Sumir sátu í allt að þrjá til fjóra tíma án þess að standa nokkurn tímann upp," er haft eftir honum.

Samloka við skrifborðið

Prófessor Beasley sagði að þetta vandamál væri algengast í upplýsingatæknigeiranum og á úthringimiðstöðvum. Prófessor Cary Cooper, sérfræðingur í stofnanasálfræði og heilsu við Lancaster-háskóla, sagðist ekki vera undrandi á niðurstöðunum. Hann sagði fólk vinna meira og lengur en nokkru sinni fyrr og tæki sér oft jafnvel ekki hádegishlé, heldur kysi að snæða samloku við skrifborðið sitt á meðan það sinnti tölvupóstinum sínum. "Skrifstofufólk stendur ekki lengur upp og gengur um eins og það var vant að gera," sagði Cooper. "Ný tækni gerir því kleift að hegða sér á þennan hátt. Ég held að það valdi fólki líkamlegum vanda vegna þess að það þarf aldrei að hreyfa sig og jafnframt sálrænum vegna þess að fólk hefur ekki samskipti við vinnufélaga lengur augliti til auglitis."

Á hverju ári fá um 100.000 manns í Bretlandi blóðtappa og allt að 1.000 manns deyja af hans völdum.