HÉRAÐSDÓMUR Suðurlands dæmdi í gær karlmann á fimmtugsaldri til fjögurra mánaða fangelsisvistar vegna brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni.

HÉRAÐSDÓMUR Suðurlands dæmdi í gær karlmann á fimmtugsaldri til fjögurra mánaða fangelsisvistar vegna brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Einnig voru þrjár konur, á þrítugs og fertugsaldri, dæmdar fyrir brot gegn sömu lögum, ein þeirra hlaut skilorðsbundið fangelsi og tvær fjársektir.

Í málinu voru einnig gerð upptæk um 1,2 kg af hassi og 17 g af amfetamíni, auk fjármuna sem talið var sannað að væri illa fengið fé.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar í Vestmannaeyjum höfðu ítrekað borist upplýsingar um að ein ákærðu í málinu væri að selja fíkniefni frá heimili sínu og fylgdist lögregla því með íbúðinni. 30. desember 2005 stöðvaði lögreglan svo bifreið ákærðu, á henni fundust fíkniefni og var ráðist í húsleit. Fannst töluvert af fíkniefnum og leitaði lögregla í fleiri húsum í Vestmannaeyjum í kjölfarið. Fundust þar fíkniefnin sem ákært var fyrir í málinu.

Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kvað upp dóminn. Karl Gauti Hjaltason sýslumaður flutti málið af hálfu ákæruvaldsins og Sveinn Andri Sveinsson hrl., Benedikt Ólafsson hrl., og Jón Ingi Hauksson hdl. vörðu ákærðu.