Ekki stætt Ökumenn á Hellisheiði gátu lítið annað en horft út í sortann og beðið aðstoðar þegar veðrið var sem verst í gær. Mikil hálka og afleitt skyggni spillti fyrir. Einungis var hægt að koma við sérútbúnum bílum.
Ekki stætt Ökumenn á Hellisheiði gátu lítið annað en horft út í sortann og beðið aðstoðar þegar veðrið var sem verst í gær. Mikil hálka og afleitt skyggni spillti fyrir. Einungis var hægt að koma við sérútbúnum bílum. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson orsi@mbl.

Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson

orsi@mbl.is

FÆRÐ og veður var með versta móti í gær, daginn fyrir vorjafndægur sem eru í dag, miðvikudag, og urðu árekstrar og slys í sumum tilvikum auk þess sem vegfarendur þurftu að reiða sig á aðstoð björgunarsveita og lögreglumanna. Frekjulegur sunnanstormur og úrkoma börðu á fólki í gær og er áfram spáð mjög hvössum sunnanáttum frameftir vikunni.

Ekkert ferðaveður var á Kjalarnesi í gær og þá var mjög slæmt veður á Suðurlandsvegi þar sem grípa varð til þeirra sjaldgæfu ráðstafana að loka fyrir umferð um Hellisheiði þegar veðurofsinn keyrði um þverbak. Var heiðin lokuð frá klukkan 11.15 til 13.30 og á meðan sættu björgunarsveitarmenn færis að aðstoða fólk á bílum sínum uppi á heiði.

Á Kjalarnesi, norðan við Grundarhverfi, fauk bíll út af í gærmorgun en engin slys urðu á fólki.

Á Sandskeiði var gríðarlega hvasst og ekki bættu hálka og blindbylur úr skák. Þar urðu fimm umferðaróhöpp, þar af einn fimm bíla árekstur og varð að flytja einn á slysadeild, þó ekki alvarlega slasaðan.

Stórhríð var á Fróðárheiði og norðanverðu Snæfellsnesi og á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku var hálka og skafrenningur.

Varað var við snjóflóðahættu á Óshlíð í gær, en snjóflóð sem féll á Kirkjubólshlíð í Skutulsfirði lokaði veginum þar. Þá var vegurinn um Eyrarfjall ófær.

Óhapp varð á Reykjanesbraut þegar hvassviðrið reif há skjólborð af vörubíl sem var á leið um Ásvelli. Skjólborðin fuku á tvo fólksbíla, sem báðir skemmdust, en fólk í þeim sakaði ekki. Lögreglan varð að loka Reykjanesbrautinni fyrir umferð úr annarri áttinni en bæði lögregla og slökkvilið höfuðborgarsvæðisins voru kölluð út vegna óhappsins.

Þá fauk rúta með norskum skólabörnum út af veginum vestan Markarfljóts í Rangárvallasýslu. Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli sakaði engan og rútan skemmdist aðeins lítillega. Rútan fór fram af talsvert háum vegkanti en bílstjóranum tókst að afstýra því að hún ylti á hliðina.

Þá var björgunarsveitin SL í Snæfellsbæ kölluð út í gærmorgun þegar þakplötur voru farnar að fjúka af nýbyggingu við Engihlíð í Ólafsvík. Í Borgarfirði óku þrír bílar út af með stuttu millibili en ekki urðu slys á fólki. Sá fyrsti fór út af kl. 10.30 sunnan við Borgarfjarðarbrú og aðeins 20 mínútum síðar varð annar útafakstur á Borgarfjarðarbraut við Grjóteyri. Um 11.30 endaði önnur bifreið út af á sama stað.

Í hnotskurn
» Ekkert lát er á hvössum sunnanáttum fram eftir vikunni og er spáð bálhvössu veðri í dag og á morgun.
» Sjaldgæft er að loka þurfi Hellisheiði vegna veðurs en ríflega tveggja tíma lokun varð að veruleika í gær. Þá áttu fjölmargir í erfiðleikum en fengu aðstoð björgunarsveitarmanna.
» Ökumanni rútu með norskum skólabörnum tókst að afstýra því að rútan ylti á hliðina þegar stormurinn ógnaði hættulega.