Eftir Sigurð Oddsson: "ÝMIS rök hafa komið með og móti stækkun álvers í Straumsvík. Fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra sagði Alcoa fremst í goggunarröðinni, því þeir hefðu komið fyrst. Undarleg röksemdafærsla það svo ekki sé meira sagt."

ÝMIS rök hafa komið með og móti stækkun álvers í Straumsvík. Fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra sagði Alcoa fremst í goggunarröðinni, því þeir hefðu komið fyrst. Undarleg röksemdafærsla það svo ekki sé meira sagt. Sé ákvörðunartakan öll í þessum dúr er ekki að furða að stjórnvöld hafi velt ábyrgðinni yfir á sveitarstjórnir sem í Hafnarfirði hafa framselt hana íbúunum.

Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins toppar svo þessa röksemdafærslu í Morgunblaðsgrein. Þar segir: "Álverið hefur verið kyrrt á sínum stað í nærri fjóra áratugi en byggðin í Hafnarfirði hefur hinsvegar nálgast álverið. Ef til vill hefði verið nær að greiða um það atkvæði fyrir löngu hversu nálægt álverinu ætti að byggja". Hann skrifar svo að Alcan hafi þegar eytt það miklum tíma og fé í undirbúning stækkunar álversins að ekki megi kjósa um stækkunina. "Hvort ekki sé líklegt að fámennur hópur áhugamanna og jafnvel niðurrifsmanna verði til að fella stækkunina í atkvæðagreiðslunni".

- Fyrir 40 árum var 90% útflutnings okkar fiskafurðir og ISAL langt utan íbúðabyggðar.

- Í dag er ál ein helsta útflutningsafurð okkar og íbúabyggð komin í næsta nágrenni Alcan.

- Eftir 15–20 ár þegar samningur Alcan rennur út verður álverið inni í miðri íbúðabyggð. Álver inni í miðri borg er tímaskekkja.

Ég get verið sammála framkvæmdastjóranum um að þetta mál varði fleiri en Hafnfirðinga og á ég þá ekki bara við þá sem jarðir við Þjórsá verða teknar af með eignarnámi. Mengunin varðar alla. Svo er það mengunarkvótinn. Ætla stjórnvöld ekki að festa í stjórnarskrá að hann sé þjóðareign? Hver hefur vald til að gefa Alcan eða einhverjum öðrum mengunarkvóta?

Undanfarið hafa birst greinar frá starfsmönnum Alcan hlynntum stækkun. Grátklökkir vara þeir við kreppu og atvinnuleysi loki álverið. Sjónarmið þeirra eru skiljanleg. Þeir hugsa: Hver vill ráða okkur miðaldra menn í vinnu ef álverinu verður lokað? Þetta er ekki rökrétt hugsun. Það er ekki verið að kjósa um að loka álverinu.

Í grátkórinn hafa nú bæst samtök þjónustuaðila álversins sem kallast Hagur Hafnarfjarðar. Þessi hagsmunasamtök munu væntanlega fá aukna vinnu verði af stækkun.

Þrátt fyrir hótanir er lokun ólíkleg og þó svo þeir loki, þá eru 15-20 ár í það. Á þeim tíma getur margt breyst. Mönnum verið sagt upp og eftirspurn eftir áli gæti minnkað vegna þess að önnur efni koma í stað áls. Fari álverið þá munu mörg innlend fyrirtæki koma í staðinn nema stjórnvöldum takist að drepa niður allan innlendan iðnað með stóriðjuþenslustefnu sinni. Í dag eru ekki til neinar iðnaðarlóðir á Stór- Reykjavíkursvæðinu nema í Hafnarfirði. Allar kjötvinnslur í Reykjavík, Kópavogi og líklega Hafnarfirði líka búa við þröngan húsakost. Þessi og fleiri fyrirtæki munu fylla upp í tómarúmið sem myndast ef álverið fer. Við það verður fleiri stoðum rennt undir atvinnumarkað Hafnarfjarðar. Það hefur aldrei verið talið gott að hafa öll eggin í sömu körfunni.

Að mínu mati er stærsta röksemdin gegn stækkun sú, að Alcan hefur tryggt sér land undir helmingi stærra álver en nú er kosið um. Þeir gætu eftir 10-15 ár óskað eftir að fá að tvöfalda framleiðsluna. Þó er líklegra að þeir stækki jafnt og þétt í smærri áföngum líkt og sl. 40 ár. Fái Alcan ekki sitt fram og hóti lokun verður erfiðara fyrir Hafnarfjörð að standa gegn stækkun en núna. Það verða meiri hagsmunir í húfi fyrir bæjarfélagið vegna aukinnar framleiðslu og svo stendur til að greiða fasteignargjöld, eins og önnur iðnfyrirtæki hafa gert.

Grátkórinn verður væntanlega líka þrefalt stærri nema við framleiðsluna vinni mest "róbótar".

Höfundur er verkfræðingur og vinur Hafnarfjarðar

Höf.: Sigurð Oddsson