Áætlun Meirihlutinn í borgarstjórn kynnti í gær frumvarp til fjárhagsáætlunar Reykjavíkur. Næst er Hanna Birna Kristjánsdóttir, þá Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Björn Ingi Hrafnsson og Jórunn Ósk Frímannsdóttir.
Áætlun Meirihlutinn í borgarstjórn kynnti í gær frumvarp til fjárhagsáætlunar Reykjavíkur. Næst er Hanna Birna Kristjánsdóttir, þá Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Björn Ingi Hrafnsson og Jórunn Ósk Frímannsdóttir. — Morgunblaðið/Sverrir
Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir 2008–2010 var kynnt í gær en hún miðar m.a. við að borgarbúar verði 122.000 talsins árið 2010.

Eftir Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Í FRUMVARPI til að áætlun um rekstur, framkvæmdir og fjármál Reykjavíkurborgar fyrir árin 2008–2010 er gert ráð fyrir að skatttekjur, þjónustutekjur og fjármunatekjur standi undir rekstri Aðalsjóðs borgarsjóðs og að langtímaskuldir sjóðsins að fjárhæð 6,6 milljarðar verði greiddar niður. Til að áætlunin standist er m.a. miðað við að íbúum Reykjavíkur fjölgi um ríflega 5.200 til ársins 2010 en það á að takast með því að úthluta lóðum fyrir alls 3.900 íbúðir, þar af um 40% undir sérbýli en með því á m.a. að fjölga íbúum sem hafa tekjur í hærri kantinum og greiða þar með hærra útsvar.

Í áætluninni er gert ráð fyrir verulegri skuldaaukningu í B-hluta borgarsjóðs en hún verður öllu minni ef ekki verður af stækkun álversins í Straumsvík eða byggingu nýs álvers í Helguvík. Aðalsjóður myndar uppistöðuna í A-hluta borgarsjóðs en í B-hluta eru félög og fyrirtæki sem eru að hluta eða öllu leyti í eigu borgarsjóðs, s.s. Orkuveita Reykjavíkur.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri og Björn Ingi Hrafnsson, forseti borgarráðs, fylgdu áætluninni úr hlaði á blaðamannafundi í hádeginu í gær og klukkan tvö hófst fyrri umræða um áætlunina í borgarstjórn.

Vilhjálmur lagði áherslu á að áætlunin væri í samræmi við málefnaáherslur meirihlutans og stefndi að því að auka lífsgæði í borginni.

Í frumvarpinu er lögð sérstök áhersla á þrjú meginmarkmið.

Í fyrsta lagi að skatttekjur, þjónustutekjur og fjármunatekjur standi undir rekstri Aðalsjóðs borgarsjóðs en undir hann fellur allur "hefðbundinn" rekstur borgarinnar, s.s. í menntamálum, velferðarmálum og vegna framkvæmda. Skatttekjur eiga að aukast með fjölgun íbúa og auknum kaupmætti og um leið á að gæta aðhalds í rekstri. Laun og launatengd gjöld eiga að lækka um rúmlega fjóra milljarða milli áranna 2006 og 2010 en borgarstjóri sagði að þetta skýrðist fyrst og fremst af því að lífeyrisskuldbindingar yrðu greiddar niður. Áhersla væri lögð á að bjóða upp á fulla þjónustu í skólum, leikskólum, frístundaheimilum sem og í velferðar- og félagsþjónustu almennt.

Í öðru lagi gerir frumvarpið ráð fyrir að framboð lóða verði aukið og fram til ársins 2010 á að úthluta lóðum undir alls 3.900 íbúðir, um 40% þeirra undir sérbýli og sagði borgarstjóri að miðað væri við hóflega stærð, um 150–200 m² hús á um 750 m² lóðum. Á þessu ári er gert ráð fyrir að 1.000 lóðum verði úthlutað í Úlfarsárdal og innan tíðar verður nánar greint frá því hvernig úthlutun henni verður háttað. Seinna kemur að úthlutun í Geldinganesi, Örfirisey og Vatnsmýri.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, forseti borgarstjórnar og formaður skipulagsráðs, greindi frá því að í næsta mánuði ætti að opna vefsvæði þar sem hægt yrði að sjá nákvæmlega hvenær ætti að úthluta tilteknum lóðum, hvernig uppbyggingu yrði háttað o.s.frv.

Þriðja meginmarkmiðið sem fjárhagsáætlunin miðast við er að gert verði átak í viðhaldi eigna borgarinnar en borgarstjóri sagði að því væri víða mjög ábótavant.

Bæði Vilhjálmur borgarstjóri og Björn Ingi, formaður borgaráðs, tóku fram að fjárhagsáætlunin væri háð ýmsum ytri skilyrðum, að hér yrði áfram kraftur í efnahagslífinu og uppbygging í atvinnulífinu. Hver þróunin yrði í þeim efnum myndi að miklu leyti ráðast eftir tvo mánuði, þ.e. í kosningum til Alþingis.

Frístundakort og íþróttir

Meðal þeirra framkvæmda sem Vilhjálmur borgarstjóri sagði að ráðist yrði í á tímabilinu 2008–2010 var uppbygging á fjölmörgum íþróttasvæðum. Frístundakort yrðu tekin upp í áföngum en þegar því lyki árið 2009 yrði kostnaður við þau rúmlega 1,2 milljarðar á ári. Smábarnadeildir yrðu byggðar upp í hverfum borgarinnar, þjónustuíbúðum fyrir aldraða fjölgað og aukinn kraftur settur í uppbyggingu í miðborginni. Þá vakti hann athygli á því að skattar yrðu ekki hækkaðir og að álagningarhlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði yrði lækkað um 25% á kjörtímabilinu.

Bæði Vilhjálmur og Björn Ingi lögðu áherslu á það í gær að fjárhagsætlunin hefði verið unnin í nánu samráði við fulltrúa allra sviða hjá borginni. Björn Ingi sagði að breytingar sem huganlega yrðu gerðar frá áætluninni yrðu innan útgjaldarammans.

Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að skatttekjur Aðalsjóðs aukist úr 47 milljörðum árið 2008 í 50,2 milljarða árið 2010 en á sama tíma aukist aðrar tekjur um 144 milljónir og framlag í jöfnunarsjóð sveitarfélaga standi nánast í stað. Á sama tímabili er gert ráð fyrir að gjöldin aukist úr 54,5 milljörðum í 56,3 milljarða þannig að þegar fjármunatekjur bætist við verði Aðalsjóður rekinn með afgangi sem verður mestur árið 2010 eða 1,7 milljarðar. Samtals verði afgangur á þessum árum um þrír milljarðar.

Í hnotskurn
» Samkvæmt áætlun um fjármál Reykjavíkurborgar 2008–2010 á að minnka skuldir, auka tekjur og bæta þjónustu.
» Meðal helstu forsendna fyrir áætluninni er að hagvöxtur verði 2,8% hvert áranna þriggja.
» Miðað er við fast verðlag og að gengisvísitalan verði í 125 stigum en þá er gengi Bandaríkjadals um 70 krónur og gengi evru 92 krónur.
» Gert er ráð fyrir að íbúum fjölgi um 6% frá árslokum 2005 til ársloka 2010, eða úr 114.800 í um 121.900. Hinn 1. desember 2006 voru íbúar í Reykjavík um 116.450.
» Miðað er við 9% stækkun á stofni til fasteignaskatts og að álagningarhlutfall á íbúðarhúsnæði lækki um 25%.
» Gert er ráð fyrir að skuldir A- og B-hluta aukist úr 129 milljörðum í 168 milljarða.