Sigmar Guðmundsson
Sigmar Guðmundsson
FINNSKU greppitrýnin í Lordi setja afar háar kröfur um aðstöðu þegar kemur að tónleikahaldi.

FINNSKU greppitrýnin í Lordi setja afar háar kröfur um aðstöðu þegar kemur að tónleikahaldi. Það var meðal annars ástæða þess að sveitin, sem er núverandi sigurvegari Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, kom ekki fram á árshátíð Kaupþings hér á landi síðastliðna helgi, ef marka má skrif Sigmars Guðmundssonar á bloggsíðu sinni.

Sigmar, sem var annar kynnir kvöldsins, segir meðal annars að einkennilegar kröfur Lordi hafi fyllt 12 blaðsíður og hljómsveitin "heimtaði meðal annars M&M kúlur í ákveðnum lit sem er náttúrlega elsti og þreyttasti rokk og ról brandari mannkynssögunnar".

Auk þess hafi kostnaður við "sprengju- og ljósasjó og uppihald hljómsveitarinnar [verið] út úr öllu korti að mati þeirra sem þekkja til".

Eins og greint var frá í Morgunblaðinu fyrr í vikunni var Evróvisjónþema á árshátíð Kaupþings, sem haldin var í Laugardalshöllinni síðastliðinn laugardag.

Þemað var vel til fundið enda fátt annað sem sameinar tæplega 2.000 Íslendinga á öllum aldri sem eru saman komnir til að skemmta sér. Dagskráin var líka vel heppnuð og Evróvisjónstjörnur á borð við Pál Óskar, Selmu, Stebba og Eyva, ICY tríóið og Olsen-bræðurnir sáu um að skemmta gestum við góðar undirtektir.

Eins og Sigmar kemst að orði:

"Miðað við stemninguna sem Olsen-bræður bjuggu til með einföldu gítarspili og vingjarnlegri framkomu, er ljóst að Kaupþingsfólki þótti ekki verra að fá miðaldra Dani en forljóta Finna."