Eftir Svein Sigurðsson
svs@mbl.is
FJÖGUR ár eru liðin frá innrás Bandaríkjamanna í Írak en ástandið í landinu er verra en nokkru sinni fyrr. Tugir manna falla á hverjum degi í átökum og ofbeldisverkum og víða þorir fólk ekki út úr húsi eftir að rökkva tekur.
Flestir þeirra Íraka, sem erlendir fréttamenn ræddu við í gær, sögðu, að óttinn um eigið líf og nánustu ættingja væri kæfandi og sumir vildu kenna bandaríska hernámsliðinu um átökin milli sjíta og súnníta. Þá gerði mikill skortur á brýnustu lífsnauðsynjum, til dæmis rafmagni og eldsneyti, lífið mjög erfitt.
Ekki var gert mikið úr innrásarafmælinu í íröskum fjölmiðlum en í sumum sagði þó, að árangurinn væri sá, að Írakar hefðu horfið frá harðstjórn til lýðræðis. Einn þingmanna sjíta sagði hins vegar, að tómt mál væri að tala um lýðræði meðan ekki væri farið að lögum. Nú einkenndist ástandið af upplausn og ofbeldi.
Milljónir manna á flótta innanlands og utan
Það segir kannski mest um ástandið í Írak, að þaðan hafa flúið að minnsta kosti tvær milljónir manna. Stjórnvöld í Sýrlandi segja, að þar séu nú 1,2 milljónir írakskra flóttamanna og þeir eru um 800.000 í Jórdaníu.Talsmenn Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna segja, að hlutskipti írösku flóttamannanna sé að mörgu leyti verra en annarra flóttamanna vegna þess, að umheimurinn hafi lokað augunum fyrir þessum vanda. Þess vegna hafi þeim lítil hjálp borist og beiðni stjórnvalda í Sýrlandi og Jórdaníu um það ekki verið sinnt.
Talið er, að auk þess fólks, sem flúið hefur Írak, hafi nærri tvær millj. manna neyðst til að flýja heimili sitt innanlands. Er álagið í sumum héruðum orðið svo mikið, að reynt hefur verið að loka landamærum þeirra. Sem dæmi má nefna, að margir arabískir Írakar hafa flúið til Kúrdahéraðanna þar sem þeir eru þó engir aufúsugestir. Í þeim landshluta eru hins vegar öryggismál í betra horfi en sunnar í landinu.