Gaman Edda í salsasnúning með dansfélaga sínum Jóni Inga Þorvaldssyni og að baki þeim er rauða sólin sem vísar í japanska fánann og karate.
Gaman Edda í salsasnúning með dansfélaga sínum Jóni Inga Þorvaldssyni og að baki þeim er rauða sólin sem vísar í japanska fánann og karate. — Morgunblaðið/Sverrir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristínu Heiðu Kristinsdóttur khk@mbl.is Salsa er gleði, gleði, gleði. Við það að dansa salsa myndast gleði í kroppnum á mér.

Eftir Kristínu Heiðu Kristinsdóttur

khk@mbl.is

Salsa er gleði, gleði, gleði. Við það að dansa salsa myndast gleði í kroppnum á mér. Eins og ég dansa salsa, svona sósíal dans, þá eru engar aðrar kröfur en þær að maður hafi gaman að því að dilla rassinum, brosa og leika sér á dansgólfinu," segir Edda Blöndal sem reynir að sinna sjúkraþjálfarastarfi sínu á milli þess sem hún dansar salsa og kennir karate.

"Ég prófaði að dansa salsa úti í Svíþjóð þegar ég stundaði þar verknám í sjúkraþjálfun fyrir þremur árum og ég varð ástfangin af þessum dansi. Ég fékk fráhvarfseinkenni þegar ég kom heim til Íslands. Þá vatt ég mér í það að flytja inn erlenda salsakennara yfir helgi og halda æfingabúðir fyrir áhugasama. Ég safnaði saman fólki og það tókst það vel að ég er búin að endurtaka leikinn fjórtán sinnum. Það hefur myndast góður félagsskapur fólks sem hefur gaman af því að dansa salsa. Ég stofnaði í framhaldi af þessu mitt eigið áhugamannafélag um salsadans, sem heitir Salsa Iceland og hefur fengið aðstöðu í Karatefélaginu Þórshamri og í leikfimisal Menntaskólans í Reykjavík. Það hafa yfir 600 manns komið og dansað salsa hjá mér á þessum tíma."

Hreyfingarleysið leiddi til sparks í ísskápinn

Edda hellti sér í salsadansinn þegar hún sleppti hendinni af karate en hún segir þetta tvennt mjög ólíkt.

"Í karate er mikil harka en líka heimspeki, lífsstíll og agi. Sérstaklega þegar maður er að keppa, þá þarf maður að ná alls konar markmiðum og því fylgir heilmikil pressa. Ég er búin að æfa karate í fimmtán ár og þar af keppti ég með landsliðinu í 10 ár og var Íslandsmeistari í 12 ár. Ég hef verið að kenna karate í gegnum árin en síðustu tvö árin í keppnisferlinu lagði ég allt í þetta og hætti allri kennslu, flutti til Stokkhólms og var að keppa og æfa með sænska landsliðinu. En ég meiddist á fæti fyrir tveimur árum og neyddist til að taka mér frí frá karate. Það var ekki auðvelt því ég er mjög mikil keppnismanneskja. Ég verð að viðurkenna að ég er fíkin í hreyfingu og ég var farin að sparka í ísskápinn heima og þetta var erfitt ástand fyrir mig. Ég ákvað því að prófa allt sem ég hafði aldrei haft tíma fyrir og aldrei gefið tækifæri. Ég fór í ótal tegundir af leikfimi, meira að segja í kerlingaleikfimi. Ég var alveg á útopnu af gleði því mér fannst þetta svo skemmtilegt. Ég uppgötvaði sem sagt að það væri líf eftir karate, sem ég hafði aldrei leyft mér að hugsa áður."

Fær líka letiköst

Edda sagði ekki alfarið skilið við karate þótt hún hefði hætt keppni fyrir rúmu ári, því núna er hún að þjálfa nemendur í Þórshamri þar sem hún er með keppnishóp.

"Hjartað á mér er inni á vellinum í hvert sinn sem þau fara þangað. En ég upplifi á hverjum degi eins og ég sé í fríi, af því ég þarf ekki að fara sjálf á karateæfingu."

Þótt Edda kenni sjálf salsa heldur hún áfram að flytja inn kennara og hún segist vera komin með góð sambönd við nokkra slíka á heimsmælikvarða.

"Næstu helgi kemur einmitt salsafólk frá Stokkhólmi og verður með æfingabúðir eða "workshop" hjá mér í Salsa Iceland. Það verður þriggja daga námskeið og ég er búin að komast að því að það hentar Íslendingum vel, því þeir vilja ekki skuldbinda sig of lengi."

Þó Edda sé sjaldan kyrr segist hún taka letiköst rétt eins aðrir.

"Ég fæ væluna inni á milli og leigi mér kannski tvær vídeóspólur og borða fullt af nammi og nenni ekki að gera neitt í heilan dag. Þannig hleð ég batteríin."

Þeir sem hafa áhuga á að prófa salsa geta farið inn á www.salsaiceland.com