Fjölmennasta hljómsveit Músíktilrauna, í það minnsta á pappírnum, var fyrst á svið. Sú heitir Davíð Arnar eftir höfuðpaur sínum. Hann stýrði og sveitinni af myndugleik, en hefði greinilega þurft aðeins meiri tíma til að æfa sveitina saman. Fyrsta lagið var þokkalegt, reyndar í því mjög fín laglína og söngkonan var hreint út sagt framúrskarandi. Seinna lagið var metnaðarfyllra og þó að það hafi ekki gengið upp er vert að leggja nafn Davíðs Arnars á minnið.
Fúx Frá kom úr annarri átt, músíkin hefðbundið poppað rokk. Flutningurinn var vel leystur, en fulldauflegur, þeir félagar hefðu mátt slá aðeins í, hækka í græjunum og sleppa sér. Seinna lag sveitarinnar var popplag í gömlum stíl, fínt lag en uppbygging þess fullfyrirsjáanleg.
Það var líka rokk á boðstólum hjá Magnyl, en nú var einfaldleikinn í fyrirrúmi – einfalt og áhrifaríkt. Vel þétt sveit og skemmtileg, sem hefði verið enn skemmtilegri með aðeins meira gítarsurgi.
Fyrsta lag Loobyloo minnti óneitanlega á gamla tíma, súrt tilraunakennt rokk og prúðmannlega spilað. Afskaplega skemmtilegt lag og sveitin gríðarlega þétt. Seinna lag Loobyloo var síðra og endaði eiginlega úti í móa.
NÓBÓ átti svo síðustu hljóma fyrir hlé. Heldur þótti mér rokkið stirðbusalegt hjá þeim félögum, þó að hauskúpubassi og kanínubúningur hafi gert sitt. Söngurinn var aftur á móti fulleintóna og lagasmíðar gengu ekki upp. Síðara lagið hjá þeim var betra og sýnir að það er eitthvað í þá spunnið, en þeir eiga nokkuð í land.
Í síðustu tilraunum stóð Kynslóð 625 sig afskaplega vel og ekki var hún síðri núna. Söngvari sveitarinnar var efnilegur á síðasta ári, en nú einfaldlega orðinn góður, öruggur með sig og afslappaður á sviði. Fyrra lag sveitarinnar var vel útfært léttmeti, en aðeins meira líf í seinna laginu.
Á dauða mínum átti ég von en ekki því að sjá blackmetalsveit með gógódansara sér til halds og trausts, en svo var því einmitt háttað með Eldborgir – með sveitinni voru tveir dansarar. Þeir juku nú ekki skemmtunina af því að horfa á hljómsveitina nema að litlu leyti, aldrei í takti og óskipulagðir. Lagasmíðar eru ekki sterkasta hlið Eldborgarmanna, en góðir sprettir hjá sveitinni þó og gítarleikari hennar og yfiröskrari stóð sig vel.
Merkilegt var að hlýða á NoneSenze, enda spiluðu liðsmenn ekki alltaf sama lagið. Músíkin var rokk að mestu en hljómsveitin gríðarlega óþétt og á stundum erfitt að átta sig á hvað var á seyði. Þeir NoneSenze-menn þurfa að taka hlutina fastari tökum fyrir næstu tilraunir, svo mikið er víst.
Hestasveitin sló botninn í þetta tilraunakvöld með kakófónísku poppi, en ólíkt NoneSenze fannst manni sem þeir væri vísvitandi kaótískir. Í fyrra laginu gægðist skemmtileg laglína í gegnum óhljóðaflækjuna, en í seinna laginu bar andinn efnið ofurliði.
Loobyloo sigraði nokkuð örugglega á sal, en dómnefnd valdi Magnyl áfram. Bestu sveitir kvöldsins komust því áfram, sem gerist ekki alltaf.
Árni Matthíasson