Mikill áhugi Það var fjölmenni á ráðstefnu Þyrpingar í gær um breyttar áherslur í þjónustu við eldri borgara.
Mikill áhugi Það var fjölmenni á ráðstefnu Þyrpingar í gær um breyttar áherslur í þjónustu við eldri borgara. — Morgunblaðið/G. Rúnar
Eftir Hörpu Lind Hrafnsdóttur MIKLAR vonir eru bundnar við að þjónusta við eldri borgara færist frá ríkinu til sveitarfélaga á næsta kjörtímabili.

Eftir Hörpu Lind Hrafnsdóttur

MIKLAR vonir eru bundnar við að þjónusta við eldri borgara færist frá ríkinu til sveitarfélaga á næsta kjörtímabili.

Þetta kom fram á ráðstefnunni "Njótum lífsins – ævina út" um breyttar áherslur í þjónustu við eldri borgara sem þróunarfélagið Þyrping hélt á Grand Hóteli í gær. Ragnheiður Elín Árnadóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra, sagðist sannfærð um að breyting yrði áöldrunarþjónustunni á næsta kjörtímabili. Hún sagði að sveitarfélögin væru betur í stakk búin til að takast á við þennan málaflokk. Þau gætu veitt persónulegri þjónustu og það væri fullur vilji innan hennar flokks að koma þessum málaflokki í gegn á næsta kjörtímabili.

Von um bjarta framtíð

Í pallborðsumræðum kom jafnframt fram sú skoðun að öldrunarþjónustan gæti verið arðbær grein. Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, spáir bjartri framtíð í þessum málaflokki. Hann telur að hagsmunasamtök, félagasamtök og almenningur taki þjónustuna í sínar hendur í framtíðinni og aldraðir muni hafa val til að greiða fyrir betri þjónustu. Reynir Ingibjartsson, formaður aðstandenda eldri borgara, skoraði á alla stjórnmálaflokka að lýsa yfir að þeir mundu beita sér fyrir því að öldrunarþjónustan yrði færð frá ríkinu til sveitarfélaganna á næsta kjörtímabili. "Menn eiga ekkert að vera bíða hér og sjá til. Það verður að gera þetta strax, við höfum ekki tíma til þess að bíða hér í ár og áratugi. Það sem við gerum strax, það mun leiða til þess að næstu ár verða miklu miklu betri heldur en þau eru í dag og það sem við gerum núna mun skila okkur í framtíðinni"

Hagur allra

Lovísa Ólafsdóttir, verkefnastjóri hjá Þyrpingu, var afar ánægð með ráðstefnuna og ítrekaði að umræddar breytingar ættu eftir að auka lífsgæði eldri borgara. "Ég tel að það hafi orðið mikil vakning á meðal ráðstefnugesta á tækni og samþættri heimaþjónustu og hvernig einkaframkvæmdin getur nýst og bætt líf aldraðra. Það er mikilvægt að ég og þú byrjum að búa í haginn fyrir efri árin," sagði Lovísa sem bendir jafnframt á að í Kanada hafi það sýnt sig að einkarekstur sé 40 prósent ódýrari valkostur heldur en leigupláss á spítölum.

Einnig sé komin góð reynsla á heimaþjónustu í Bandaríkjunum og hafi það sýnt sig að sú þjónusta skili sér í allt að 60 prósenta skilvirkni og hagkvæmni til þeirra sem nýti sér hana.

Lovísa telur að slík þjónusta myndi jafnframt skila sér til ríkisins í færri heimsóknum til lækna og á spítala. Aðspurð sagðist Lovísa hafa tröllatrú á því að þjónustan við aldraða myndi færast yfir til sveitarfélaganna á næsta kjörtímabili.

Langir biðlistar eru eftir plássi á hjúkrunarheimili og talsvert vantar upp á að hægt sé að mæta þörfum einstaklinga hvað varðar þjónustu í eigin húsnæði. Rannsóknir sýna að einstaklingum 65 ára og eldri mun fjölga um tæplega 60 prósent fram til ársins 2005. Því er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvernig bæta megi öldrunarþjónustu til að hún skili sér að fullu til þeirra sem mest þurfa á henni að halda. Tillögur Þyrpingar eru jafnframt að byggja íbúðarhverfi sem býður upp á góða öldrunarþjónustu þar sem áhersla verður lögð á þjónustu, forvarnir og virka þátttöku eldri borgara.

Í hnotskurn
» Í Kanada þykir það hafa sýnt sig að einkarekstur í öldrunarþjónustu er 40 prósent ódýrari valkostur heldur en leigupláss á spítölum.
» Rannsóknir sýna að einstaklingum 65 ára og eldri mun fjölga um tæplega 60 prósent fram til ársins 2005. Brýnt er því að ræða ólík úrræði í öldrunarþjónustu.