Jakob Smári | 20. mars Sól, sól, skín á mig ! Það styttist nú aldeilis í afmælistónleika okkar félaganna í Síðan Skein Sól, eða SSSÓL. Við erum orðnir tvítugir, æringjarnir í Sólinni. Aldeilis gott.

Jakob Smári | 20. mars

Sól, sól, skín á mig !

Það styttist nú aldeilis í afmælistónleika okkar félaganna í Síðan Skein Sól, eða SSSÓL. Við erum orðnir tvítugir, æringjarnir í Sólinni. Aldeilis gott. Sumir tala um "comeback", en það er ekki rétt. Við höfum aldrei hætt, bara haft misjafnlega hátt. Tæknilega getum við því ekki verið með "comeback". Kannski eftir 20 ár. "Síðan Skein Sól á Broadway. Komið og upplifið gömlu góðu sveitaballastemninguna með Helga og félögum í Sólinni. JE JE JE. Þeir hafa næstum því engu gleymt."

En hvað þýðir það annars að hljómsveit sé orðin 20 ára ? Ég man þegar ég var tvítugur. Það ár byrjaði ég að vinna með Bubba Morthens í fyrsta skipti. Hljómsveitin Das Kapital var stofnuð. Þetta ár ákvað ég að segja upp dagvinnunni og gerast atvinnutónlistamaður. Sú atvinnumennska var nú reyndar ekki langlíf í það skiptið, enda Das Kapital ekki beinlínis vinsæl hljómsveit á þeim tíma. Nánast bara óvinsæl. Vinsældirnar komu eiginlega eftir á. Það má líka segja að um eða upp úr tvítugu hafi alvaran tekið við. Ég fór að búa og bera ábyrgð á eigin lífi. Maður var eiginlega orðinn fullorðinn. SSSól á einmitt einhvers staðar lag sem heitir "Fullorðinn". Erum við kannski loksins orðnir fullorðnir? Þurfum við kannski að fara að taka ábyrgð á sjálfum okkur? Þýðir þetta kannski að við förum að "þroskast sem tónlistarmenn"? Kannski eru þetta endalokin. Hvað veit ég? Endalok hljómsveitar eru svosem ekki það versta sem getur gerst. Þau eru upphafið að "comebacki".

Þegar ég var tvítugur voru Rolling Stones búnir að starfa í 20 ár. Guð minn góður.

jakobsmagg.blog.is