SVEITARFÉLÖGIN Mosfellsbær og Borgarbyggð hyggja á samstarf í menningarmálum. Bæjarstjórarnir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Páll Brynjarsson undirrituðu viljayfirlýsingu þess efnis við athöfn í Landnámssetrinu í Borgarnesi. Þar var við sama tækifæri tekinn í notkun upplýsingaskjár um fornleifauppgröftinn í Mosfellsdal.
Það er í raun Egill Skallagrímsson sem tengir þessi tvö sveitarfélög saman á menningarsviðinu eins og kom fram í ávarpi Sigríðar Bjarkar Jónsdóttur, formanns menningarnefndar Borgarbyggðar, við þetta tækifæri. Egill fæddist og ólst upp á Borg á Mýrum, en hann átti síðustu æviár sín í Mosfellsdal þar sem hann lést í skjóli Þórdísar fósturdóttur sinnar.