[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ef streitan er alveg að fara með þig ættirðu að lesa áfram...

Ef streitan er alveg að fara með þig ættirðu að lesa áfram... Þú getur auðveldlega tileinkað þér slökunaraðferðir sem eru gagnleg leið til að draga úr neikvæðum áhrifum streitu með það að markmiði að öðlast betri lífsgæði, að því er frá segir á vef Mayo-heilsustofnunarinnar.

Það að slaka á er ekki bara að finna sálarró og gleyma sér í áhugamálinu heldur er slökun markvisst ferli sem dregur úr neikvæðum áhrifum hversdagsamstursins á líkama og sál. Hvort sem þú ert mjög stressaður eða tekst ágætlega að bægja streitunni frá þér bæta slökunaræfingar heilsuna en ljóst þykir að slökun stendur oftar en ekki út af borðinu hjá önnum köfnum jarðarbúum.

Með slökunaræfingum er mögulegt að stuðla að því að líkaminn bregðist betur við streitu, s.s. með hægari hjartslætti og öndun, lægri blóðþrýstingi, súrefnisþörfin verður minni, blóðflæði til vöðva eykst og dregið er úr vöðvaspennu.

Heilsufarslegur ávinningur af reglulegri slökun er eftirfarandi

*Dregur úr líkamlegum einkennum, eins og höfuð- og bakverkjum.

*Minni tilfinningasveiflur, s.s. reiði og pirringur.

*Aukin orka.

*Betri einbeiting.

*Aukin hæfni til að takast á við vandamál.

*Aukin afköst.

Ýmsar leiðir eru til slökunar og er mörgum kunnugt um aðferðir jóga, tónlistar, líkamsæfinga, hugleiðslu, dáleiðslu og nudds.

Eftirfarandi slökunaraðferðir eru minna þekktar.

* Innri slökun: Þar sem tæknin felst í því að sjá eitthvað fyrir sér og vera meðvitaður um líkamsstarfsemina til að draga úr streitu. Ákveðin orð eru endurtekin í huganum til að slaka á og draga úr vöðvaspennu. T.d. er hægt að ímynda sér friðsælan stað og einbeita sér að því að róa öndunina og hægja á hjartslætti, eða slaka á útlimum, hverjum af öðrum.

* Vöðvaslökun: Í fyrstu eru vöðvar spenntir rólega upp og síðan slakað á hverjum vöðvahópi fyrir sig. Aðferðin sýnir vel fram á mismuninn milli vöðvaspennu og slökunar og þú verður meðvitaðri um líkamsstarfsemina. T.d. er gott að byrja á tánum, spenna og slaka, og halda svo áfram, upp að hálsi og höfði. Spennunni er haldið í a.m.k. 5 sekúndur og slökun á eftir í 30 sekúndur, svo endurtekið.

* Sjónsköpun: Með ákveðna mynd í huganum er farið í "myndræna" ferð til friðsæls staðar eða með vissar aðstæður í huga. Reyndu að nýta eins mörg skynjunarfæri og þú getur til þess; lykt, sjón, heyrn og áferð. Ef þú sérð t.d. hafið fyrir þér, hugsaðu um sólarylinn, sjávarhljóðið, þá tilfinningu að koma við sandinn og sjávarlyktina. Ráðlegt er að lygna aftur augunum, sitja á rólegum stað og klæðast þægilegum fötum.

Slökunartækni gerir það að verkum að maður verður sér meðvitandi um alla spennu í vöðvum og önnur líkamleg einkenni streitu. Þannig gerir maður sér grein fyrir streitueinkennum og getur um leið beitt vissri tækni til að koma í veg fyrir þau. Mikilvægt er að vera þolinmóður, þess minnugur að slökun er ákveðin kunnátta sem maður tileinkar sér smám saman.