Björk Vilhelmsdóttir
Björk Vilhelmsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í YFIRLÝSINGU fulltrúa minnihlutans í borgarstjórn segir að Reykjavíkurborg muni taka á sig "gráan" lit á næstu árum ef þriggja ára áætlun meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks gangi eftir.

Í YFIRLÝSINGU fulltrúa minnihlutans í borgarstjórn segir að Reykjavíkurborg muni taka á sig "gráan" lit á næstu árum ef þriggja ára áætlun meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks gangi eftir. Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingar, segist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með áætlun meirihlutans og fjarri lagi sé að samræmi sé á milli yfirlýsinga borgarstjóra um áherslur í umhverfismálum og fjárveitinga þar að lútandi.

"Þetta eru orðin tóm," segir hún. "Ef leggja hefði átt áherslu á umhverfismálin hefði að minnsta kosti átt að láta þau halda í við verðlagsþróun. Því fer hins vegar fjarri, um er að ræða mesta niðurskurð á nokkru fagsviði eins og fram kemur í gögnum sem borgarstjórnarmeirihlutinn lét frá sér fara í dag."

Í yfirlýsingu minnihlutans frá í gær segir að hjá borginni eigi að skera niður í launakostnaði á sama tíma og fólk vanti til starfa við uppeldi, menntun og velferðarþjónustu. "Fjárfesta á í götum og öðrum mannvirkjum en ekki er að finna fjármagn í fögur loforð um stóraukna þjónustu við aldraða," segir þar.

Grá borg í stað grænnar

"Framlög til fasteigna aukast um tæpan milljarð milli ára eða 25% hækkun í steypu og tæp 50% hækkun er á framlögum til gatnagerðar. 6,4% lækkun er hinsvegar á framlagi til umhverfissviðs á sama tíma og borgarstjóri talar um sérstaka áherslu á umhverfismálin. Umhverfissvið tekur á sig langmesta lækkun allra fagsviða og því eðlilegt að spurt sé hvar eigi að skera niður í umhverfismálum þegar talað er um sérstakar áherslur. Í hverju eiga þær að felast? Þetta skýtur sérstaklega skökku við þegar áhersla á umhverfismál eykst hvarvetna í samfélaginu.

Óvissa í starfsmannamálum

Mikil óvissa ríkir í starfsmannamálum. Gjöld til launa og launatengdra gjalda A-hluta lækka úr rúmum 31 milljarði í 27 milljarða. Lækkun er um 4 milljarða á tímabilinu sem skýrist að einhverju leyti af lífeyrisskuldbindingum en áhersla verður á aðhald í starfsmannamálum.

Þetta er undarlegt í ljósi þess að það vantar fólk til starfa í heima- og stuðningsþjónustu, í skólum, leikskólum og frístundaheimilum.

Vaxandi skuldir

Heildarafkoma samstæðunnar (A og B-hluta borgarsjóðs) skiptir mestu máli varðandi skuldastöðuna. Heildarskuldir í ár eru 128,8 milljarðar, árið 2008 131,5 milljarðar, 2009 149 milljarðar (hækkun um 18 milljarða) og svo rjúka heildarskuldirnar upp um aðra 18 milljarða árið 2010 í 168,5 milljarða. Í ár eru heildarskuldir 128 milljarðar en verða árið 2010 168 milljarðar. Það er hækkun heildarskulda um 40 milljarða á þremur árum og skuldir án lífeyrisskuldbindinga hækka um 50 milljarða á sama tímabili.

Fögur orð en lítið fjármagn í þjónustu og velferð

Þriggja ára áætlun á að endurspegla málefnasamning meirihluta Framsóknar og Sjálfstæðisflokks að þeirra sögn. Þar var helst talað um málefni eldri borgara og m.a. sagt að áætlun um bætta heimaþjónustu og fjölgun dagvistarrýma myndi liggja fyrir síðastliðið haust. Nú er að koma vor og enn liggur þessi áætlun ekki fyrir og er ekki að finna í þriggja ára áætlun

Enn fremur var heitið umtalsverðri fjölgun hjúkrunarrýma á kjörtímabilinu. Allar efndirnar sem sjá má í þriggja ára áætlun eru þrjú ný hjúkrunarheimili, þau sömu sem Reykjavíkurborg var búin að semja um í fyrri meirihluta og gera ráð fyrir.

Við viljum græna borg en ekki gráa!

Við viljum fá fólk til starfa fyrir borgarbúa en ekki óútskýrt aðhald í starfsmannamálum.

Við viljum sjá fjármagn í samræmi við fögur orð um aukna þjónustu við aldraða

Hverfa frá þéttingu byggðar

Að sögn Bjarkar Vilhelmsdóttur er greinilegt að borgarstjórnarmeirihlutinn er í áætlun sinni að fara frá þéttingu byggðar og stefna þess í stað í stórfelldum mæli að uppbyggingu sérbýlishverfa. "Það er í sjálfu sér mjög óumhverfisvænt, því þar er ekki verið að nýta innviði samfélagsins," segir hún. "Þétting byggðar er ein meginleiðin til að gera borgir umhverfisvænni. En meirihlutinn er alveg að hverfa frá þessu. Borgarstjóri talar síðan um metnaðarfull græn skref án þess að skýra það nokkuð frekar. Þegar maður horfir á tölurnar og hlustar á meirihlutann myndast eitt stórt spurningarmerki.

Ennfremur er aðhald í starfsmannamálum óútskýrt og við fáum vonandi svör við ýmsum spurningum í þeim efnum í síðari umræðu um málið."