Mjólkuriðnaðurinn er líklega verndaðasta atvinnugrein á Íslandi. Hann hefur nánast enga erlenda samkeppni; hún er útilokuð með ofurtollum.

Mjólkuriðnaðurinn er líklega verndaðasta atvinnugrein á Íslandi. Hann hefur nánast enga erlenda samkeppni; hún er útilokuð með ofurtollum. Árum saman hefur landbúnaðarráðherra látið sem vind um eyru þjóta tilmæli samkeppnisyfirvalda um að samkeppnislöggjöfin nái yfir mjólkuriðnað eins og aðrar atvinnugreinar og að opinberri verðstýringu á mjólkurafurðum verði hætt.

Í opinberri verðstýringu felst að nefnd á vegum ríkisins ákveður heildsöluverð á ákveðnum mjólkurvörum. Af vörum á neytendamarkaði eru það nýmjólk, rjómi, undanrenna, skyr, smjör og brauðostar (45% og 30% í heilum og hálfum stykkjum). Heildsöluverðlagning á öðrum mjólkurafurðum er frjáls.

Morgunblaðið hefur verið í hópi þeirra, sem hafa gagnrýnt opinbera verðlagningu mjólkurvara og nánast algjöran skort á samkeppni í framleiðslu þeirra. Hagsmunaaðilar í mjólkuriðnaðinum hafa verið á annarri skoðun – þangað til skyndilega síðastliðinn föstudag.

Þá sagði Guðbrandur Sigurðsson, forstjóri Mjólkursamsölu Reykjavíkur, í ræðu sinni á aðalfundi fyrirtækisins: "Það er orðið mjög tímabært að við beitum okkur fyrir því að hin opinbera verðlagning á mjólk verði felld niður."

Eru afurðastöðvar í mjólkuriðnaði skyndilega orðnar hlynntar frjálsum viðskiptum? Nei, málið er ekki þannig þegar grannt er skoðað.

Mjólkursamsalan er nú samsett úr þremur fyrirtækjum, sem áður skiptu markaðnum fyrir mjólkurafurðir að mestu leyti með sér í bróðerni. Þau fengu að sameinast án þess að samkeppnisyfirvöld gætu lyft litla fingri – sem hefði ekki gerzt í neinni annarri atvinnugrein.

Í ræðu sinni sagði Guðbrandur Sigurðsson að hið opinbera verðlagskerfi hefði orðið til þess að iðnaðurinn borgaði með drykkjarmjólkinni og það hefði áhrif á verðlagningu á vinnsluvörum mjólkuriðnaðarins. "Þannig hefur skapast töluverð slagsíða í verðlagningunni hjá okkur og auðelt er fyrir nýja aðila, hvort sem er erlenda eða innlenda, að fleyta rjómann af markaðnum í orðsins fyllstu merkingu," sagði hann.

Eftir að Mjólka hóf að keppa við hið verndaða einokunarkerfi í mjólkuriðnaðinum með sölu á fetaosti í verzlunum lækkaði verðið á þeirri vöru. Orð forstjóra MS þýða í raun, að fyrirtækið vill nú losna við opinberu verðstýringuna til þess að geta hækkað verðið á mjólkurvörum, sem hafa enga samkeppni, í því skyni að eiga hægara um vik að lækka verðið á vörum, sem hafa samkeppni.

Svona öfugsnúið er ástandið í mjólkuriðnaðinum orðið; að afnám opinberrar verðlagningar getur stuðlað að því að hækka verðið á helztu nauðsynjavörunum og kæfa um leið þá litlu samkeppni, sem þó hefur tekizt að koma á. Og forstjóri MS fer ekki einu sinni í felur með að hann vill fá að drepa samkeppnina.

Ef engin samkeppni er á markaði, skiptir það auðvitað í raun litlu máli hvort opinber verðstýring er afnumin. Einokunarrisinn ræður verðinu og drepur keppinautana sér til skemmtunar.