Alþingi Helgi Laxdal, formaður VM, afhendir Sólveigu Pétursdóttur, forseta Alþingis, mótmæli vegna nýrra laga um Landhelgisgæzluna.
Alþingi Helgi Laxdal, formaður VM, afhendir Sólveigu Pétursdóttur, forseta Alþingis, mótmæli vegna nýrra laga um Landhelgisgæzluna. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
VM, félag vélstjóra og málmtæknimanna, afhenti forseta Alþingis, Sólveigu Pétursdóttur, formleg mótmæli vegna nýrra laga um Landhelgisgæzluna undir lok þingsins í síðustu viku.

VM, félag vélstjóra og málmtæknimanna, afhenti forseta Alþingis, Sólveigu Pétursdóttur, formleg mótmæli vegna nýrra laga um Landhelgisgæzluna undir lok þingsins í síðustu viku. Mótmælin snúa meðal annars að kjörum áhafna varðskipanna og breytingum á skiptingu björgunarlauna.

Helgi Laxdal, formaður VM, segir að með breytingu björgunarlaunanna hækki hlutur skipstjóra um 350% en hlutur annarra í áhöfn lækki um 25%. Í eldri lögum um skiptingu björgunarlauna skiptust þau á milli áhafnarinnar allrar í samræmi við föst mánaðarlaun hvers og eins. Í nýju lögunum segir að hlut áhafnar skuli skipt á þann veg að skipstjóri fái einn þriðja hlut, en hin eiginlega áhöfn tvo þriðju hluta og skiptist þau í samræmi við mánaðarlaun. Helgi bendir á að breytingin miðist við samnorrænt ákvæði frá síðari hluta nítjándu aldar, þrátt fyrir gjörbreyttar aðstæður í dag. Hann nefnir líka að á hinum Norðurlöndunum fái áhafnir varðskipa ekki greidd björgunarlaun, þar sem svo sé litið á að björgunarstörfin séu hluti af þeirri vinnu, sem þær eru ráðnar til að sinna. Í Færeyjum séu hins vegar í gildi reglur sem séu eins og eldri reglur hér, sé erlendu skipi bjargað.

Hvað varðar kjarasamninga áhafna varðskipanna segir Helgi að þær hafi ekki rétt til verkfalla og því verði að tryggja kjör þeirra með öðrum hætti. Nýju lögin tryggi kjörin ekki nægilega, enda sé fellt úr fyrri lögum ákvæði um tengingu við laun á kaupskipaflotanum. Bæði þessi atriði séu óviðunandi og rýri kjör áhafna varðskipanna.