Bátar Þetta er annar báturinn sem er smíðaður í Siglufirði, en hann hefur verið seldur til Noregs. Næsti bátur verður afhentur í lok aprílmánaðar.
Bátar Þetta er annar báturinn sem er smíðaður í Siglufirði, en hann hefur verið seldur til Noregs. Næsti bátur verður afhentur í lok aprílmánaðar. — Ljósmynd/Örn Þórarinsson
Siglufjörður | Á dögunum var afhentur annar plastbáturinn sem smíðaður er frá grunni í Siglufirði, fyrirtækin Siglufjarðarseigur ehf. og JE Vélaverkstæði sáu um smíðina. Kaupandi bátsins er norskur útgerðarmaður og er báturinn nú á leið til Noregs.

Siglufjörður | Á dögunum var afhentur annar plastbáturinn sem smíðaður er frá grunni í Siglufirði, fyrirtækin Siglufjarðarseigur ehf. og JE Vélaverkstæði sáu um smíðina. Kaupandi bátsins er norskur útgerðarmaður og er báturinn nú á leið til Noregs. Vegna veðurútlits á næstunni var horfið frá að sigla bátnum út en honum þess í stað siglt til Seyðisfjarðar þar sem hann verður fluttur út með Norrænu.

Eingöngu gerður út á net

Nýi báturinn er 11,6 brúttó tonn að stærð. Hann er 10,65 metrar á lengd og 3,3 á breidd og kallast Seigur 1067. Ganghraði í prufusiglingu var 29 mílur með liðlega þrettán hundruð lítra af olíu og hundrað lítra af vatni í sér auk búnaðar sem þarf til netaveiða. Siglingatæki og annar búnaður í honum er í mörgu svipaður og í fyrsta bátnum sem afhentur var í nóvember sl. Helsta breyting á fyrirkomulagi er að innangengt er úr stýrishúsi á WC og einnig er sturta í sama rými. Skrokkurinn á þessum bát er 0,5 metrum styttri en á þeim fyrsta til að falla að reglum varðandi smábáta í Noregi og hann verður eingöngu gerður út til netaveiða.

Vélin er Volvo PentaD 12-650 hestöfl. Siglingatæki koma frá FURUNO og OLEX. Meðal búnaðar á bátnum er svokallaður fellikjölur. Einnig 250 mm bógskrúfa tengd við sjálfstýringu sem auðveldar stjórnendum að athafna sig við veiðarfærin. Öflugir flapsar eru aftan á botni bátsins til að rétta hann af. Þá er svokallað flipastýri sem auðveldar stjórnun á bátnum, sérstaklega í þröngum höfnum. Þá er í honum netaspil sem fengið var frá Danmörku og ennfremur krani sem mögulegt er að nota við löndun og verður hann einnig notaður fyrir netaniðurleggjara, þ.e. þegar verið er að draga netin verður þeim hagrætt með honum niður í kör.

Talsverður áhugi

Að sögn Guðna Sigtryggssonar, framkvæmdastjóra JE Vélaverkstæðis, var byrjað á þessum bát um leið og fyrsti báturinn fór úr húsi í nóvember. Síðan hafa unnið að jafnaði sex menn frá fyrirtækinu við bátinn auk undirverktaka, þannig sá Rafbær hf. í Siglufirði um allar raflagnir. Að sögn Guðna er stutt í að næsti bátur verði uppsteyptur og er stefnt að afhendingu á honum í lok apríl og fer hann til Hnífsdals. Kaupendur eru Davíð og Hallgrímur Kjartanssynir.

Guðni segir að talsverður áhugi sé fyrir bátum sem fyrirtækið er að framleiða og nokkrir útgerðarmenn að hugsa málin varðandi kaup á bátum. Guðni sagði að það væri verulegur Þrándur í Götu við útflutning á svona bát að það yrði að sigla honum annaðhvort suður til Reykjavíkur eða Vestmannaeyja eða til Austfjarða til að koma honum í skip þar sem nú sigla engin flutningaskip lengur á hafnir Norðanlands.

Í hnotskurn
» Ganghraði í prufusiglingu var 29 mílur með liðlega þrettán hundruð lítra af olíu og hundrað lítra af vatni.
» Þá er svokallað flipastýri sem auðveldar stjórnun á bátnum, sérstaklega í þröngum höfnum.
» Stutt er í að næsti bátur verði uppsteyptur og er stefnt að afhendingu á honum í lok apríl.