Netið hefur valdið upplýsingabyltingu, en þar er einnig að finna uppsprettu sora og þess lágkúrulegasta í mannlegu eðli.

Netið hefur valdið upplýsingabyltingu, en þar er einnig að finna uppsprettu sora og þess lágkúrulegasta í mannlegu eðli. Í Morgunblaðinu í gær kemur fram að Barnaheillum bárust á árunum 2001 til 2006 rúmlega eitt þúsund ábendingar um ólöglegt efni á Netinu. Alls bárust samtökunum um 3.500 ábendingar um óæskilegt efni á Netinu. Frá september 2004 til ágúst 2005 var í 176 tilfellum um kynferðislegt ofbeldi á börnum að ræða og á sama tímabili árin 2005 til 2006 bárust 220 ábendingar um slíkt efni.

Einn helsti kostur Netsins er hversu opið og óheft það er, en það er um leið einn helsti ókostur þess. Börn standa berskjölduð gagnvart klámi á Netinu og í sumum tilfellum er auglýsingum um slíkt efni laumað við hlið efnis, sem sérstaklega er beint til barna, til dæmis tölvuleikjum. Gott dæmi er vinsæll barnaleikur, sem nefnist Wicky Woo. Við hlið hans voru auglýsingar með fáklæddum stúlkum og um póker á Netinu. Aðgangur að leiknum hefur verið í gegnum Leikjanet.is.

Aðstandendur Leikjanets.is hafa brugðist við ábendingum um þetta efni og tekið leikina út. Eins og fram kemur í Morgunblaðinu í gær er hins vegar erfitt að hafa stöðugt eftirlit með því efni, sem íslenskir aðilar veita aðgang að. Börn geta hæglega ratað óvart inn á ólöglegt efni og sýnir könnun, sem gerð var fyrir skömmu meðal barna á aldrinum níu til 16 ára að 8 helmingur þeirra hafi farið óvart inn á klámfengnar síður. Í könnuninni er einnig spurt um eftirlit foreldra með börnum á meðan þau eru á Netinu og kemur þar fram hrópandi mótsögn. 87% foreldra segjast sitja hjá börnum sínum meðan þau eru á Netinu, en aðeins 22% barnanna segja að foreldrarnir fylgist með þeim.

Petrína Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla, segir að samtökin hafi áhuga á því að settar verði síur á vefsíður þar sem ólöglegt klám- og ofbeldisefni sé að finna og vísar til þess að það hafi verið gert í Noregi og víðar á Norðurlöndum með ágætum árangri. Það leysi þó ekki vandamálið eitt og sér.

Þegar öllu eru á botninn hvolft er það hins vegar fyrst og fremst á ábyrgð foreldra að fylgjast með því hvaða efni börn þeirra hafa aðgang að. Þeir, sem veita netþjónustu, geta heldur ekki skorast undan ábyrgð.

Greinilegt er á þeim mikla fjölda ábendinga, sem Barnaheillum berast, að fólk fylgist vel með því, sem fyrir augu ber á Netinu, og lætur vita þegar það rekst á eitthvað óeðlilegt. Það er mjög jákvætt. Um leið þarf að brýna fyrir börnum að gæta sín og foreldrar þurfa að gera sér grein fyrir því hvernig efni getur dunið á varnarlausum börnum þeirra.