Joe Hill - King
Joe Hill - King
ÞAÐ var varla við því að búast að bransinn sem sérhæfir sig í "frásögnum" gæti þagað yfir krassandi leyndarmáli. Það tókst þó í áratug. Rithöfundurinn Joe Hill vissi líka að það yrði einungis tímaspursmál hvenær upp kæmist um leyndarmálið...

ÞAÐ var varla við því að búast að bransinn sem sérhæfir sig í "frásögnum" gæti þagað yfir krassandi leyndarmáli. Það tókst þó í áratug. Rithöfundurinn Joe Hill vissi líka að það yrði einungis tímaspursmál hvenær upp kæmist um leyndarmálið hans.

Þegar hrollvekjuskáldsaga hans, Hjartaskrínið kom út í síðasta mánuði, og fékk glimrandi góða dóma þótti ýmsum orðið dularfullt hvað lítið spurðist um þennan nýja rithöfund með svo kunnuglegan streng í heim hrollsins og þess yfirnáttúrlega. Í tíu ár hafði Joe Hill samið smásögur og átti líka óútgefna skáldsögu í skúffunni sinni.

En nú er þögnin rofin: Joe Hill verður aldrei samur, og lesendur hans eiga aldrei eftir að líta hann sömu augum og fyrr. Leyndarmálið var að Joe Hill reyndist vera 34 ára sonur Stephens King. Það er spurning hvort það sé erfitt eða auðvelt að vera barn stjörnurithöfundar. Sonurinn hafði alltént engan áhuga á að lesendur hans settu upp Stephen King-gleraugun sín þegar þeir opnuðu bók eftir hann. Hann vildi komast að því hvort hann ætti sjálfur möguleika, á markaði þar sem faðir hans er ókrýndur kóngur. Þess vegna ritaði hann undir dulnefni. "Ég vildi bara standa og falla á eigin verðleikum, og kosturinn við það var líka að geta gert mistök án þess að allt yrði vitlaust."

Joe Hill heitir í raunveruleikanum Joseph Hillstrom King, og er skírður eftir amerísku verkalýðshetjunni. Dulnefnið var því ekki alveg svo fráleitt – og merkilegt að enginn skyldi hafa ráðið í þær rúnir fyrr. Stephen King og kona hans voru frjálslyndir róttæklingar á þeim árum er sonurinn fæddist og Joe Hill hetja í þeirra augum.

Það þarf varla að efast um að næstu bóka Joes Hill – Josephs Hillstroms King, verður beðið með eftirvæntingu.