Eins og lesa mátti úr bíólistanum sem birtur var í Morgunblaðinu í gær var Epic Movie önnur tekjuhæsta mynd nýliðinnar helgar á Íslandi. Epic Movie flokkast til mynda af þeirri gerð sem Kaninn kallar "spoof", en þar eru á ferðinni myndir sem draga dár að öðrum kvikmyndum, oftast nýlegum og vinsælum, eða að sérstakri gerð mynda. Þannig eru í Epic Movie dregnar sundur og saman í háði kvikmyndir á borð við Harry Potter , Endurkomu ofurmennisins , Sjóræningja Karíbahafsins , Stjörnustríðsbálkinn og Da Vinci-lykilinn .
Háðsmyndir í anda Epic Movie stinga reglulega upp kollinum. Jim Abrahams og bræðurnir Jerry og David Zucker eru að öðrum ólöstuðum meistararnir í framleiðslu mynda af slíkum meiði og miklir frumkvöðlar. Saman skrifuðu þremenningar og leikstýrðu hinni óborganlegu Airplane! (1980), þar sem gert er grín að stórslysamyndum, Top Secret! (1984), þar sem stríðsmyndir eru aðhlátursefnið, og Beint á ská- þríleikinn um leynilögreglumanninn treggáfaða Frank Drebin (1988, 1991, 1994).
Meðal annarra "spoof"-mynda má nefna Spaceballs (1987), sem gerir grín á kostnað Stjörnustríðsbálksins; hrollvekjur eru svo skotspónn Scary Movie (2000) og myndirnar Not Another Teen Movie (2001) og Date Movie (2006) leggja til atlögu við klisjur unglingamyndanna. Eru þá ýmsar ótaldar.
Nauðsynleg forsenda þess að fólk flykkist í bíó til að sjá myndir eins og Epic Movie er að það þekki til þeirra kvikmynda sem þar er vísað í og grín að gert. Það segir því sitthvað um framboðið í kvikmyndahúsum landsins að í gegnum tíðina hafa myndir af þessu tagi átt miklum vinsældum að fagna á Íslandi.
Hvort sú staðreynd er jákvæð eða neikvæð er hins vegar hvers og eins að dæma um.
floki@mbl.is
Flóki Guðmundsson