VERULEGAR breytingar verða á þeim mælingaraðferðum sem notaðar eru við kannanir á lestri dagblaða með nýjum samningi til þriggja ára sem gerður var í gær á milli Capacent Gallup og samstarfshóps um fjölmiðlarannsóknir um símælingu á dagblaðalestri og netmiðlaheimsóknum. Mælingaraðferðin mun byggjast á samfelldum daglegum símamælingum, þar sem u.þ.b. 30 svara er aflað á hverjum degi allt árið um kring. Spurt verður um lestur á tölublaði dagblaða sem gefin eru út daginn áður. Skv. upplýsingum Capacent er hér um að ræða mikla breytingu á mælingaraðferð á lestri dagblaða sem hingað til hefur verið gerð með dagbókarkönnunum.
Einnig felst í samkomulaginu sú nýjung að netmiðlaheimsóknir fólks verða kannaðar á sama hátt og dagblaðalestur í fjölmiðlakönnunum og verða tölur um markhópa netmiðla aðgengilegar í birtingarforritum. Birta á niðurstöður ársfjórðungslega sem byggjast á lestri dagblaða fyrir undangengnar 12 vikur, eða á a.m.k. 2.400 svörum í hvert sinn.
Samstarfshópurinn samanstendur af fjölmiðlum og auglýsinga- og birtingarstofum og standa eftirtaldir að honum: Árvakur (Morgunblaðið), Ár og dagur (Blaðið) og 365 miðlar ehf. (Fréttablaðið), ásamt Samtökum íslenskra auglýsingastofa, Birtingahúsinu, MediaCom og Góðu fólki McCann.
Auk lestrarmælingarinnar verður árlega gerð svokölluð gæðamæling þar sem fólk metur fjölmiðlana.