— Morgunblaðið/Sigurður Sigmundsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sigurð Sigmundsson Hrunamannahreppur | "Þetta var alveg stórkostlegt," sagði María Magnúsdóttir, sonardóttir Sigurðar Ágústssonar, bónda, skálds og tónskálds í Birtingaholti í Hrunamannahreppi, í samtali við fréttaritara og um leið og...

Eftir Sigurð Sigmundsson

Hrunamannahreppur | "Þetta var alveg stórkostlegt," sagði María Magnúsdóttir, sonardóttir Sigurðar Ágústssonar, bónda, skálds og tónskálds í Birtingaholti í Hrunamannahreppi, í samtali við fréttaritara og um leið og hún færði stjórnanda og kórum þakklæti fyrir framlag til hátíðartónleika sem haldnir voru um helgina, í tilefni þess að hundrað ár eru liðin frá fæðingu Sigurðar.

Á laugardagskvöldið var fjöldi manns saman kominn í íþróttahúsinu á Flúðum til að hlýða á fjóra kóra syngja, auk Óskars Péturssonar einsöngvara frá Álftagerði. Hinn snjalli píanóleikari Miklós Dalmay frumflutti tilbrigði sitt um stef Sigurðar Ágústssonar. Kórarnir sem komu fram voru Vörðukórinn sem Loftur Erlingsson stjórnaði en undirleik annaðist Helga Höge Sigurðardóttir. Karlakórinn Fóstbræður, stjórnandi Árni Harðarson og undirleikari Miklós Dalmay, Kirkjukór Hrunaprestakalls og Karlakór Hreppamanna sem Edit Molnár stjórnar en Miklós Dalmay lék undir á píanó.

Dagskrá sunnudagsins hófst með messu í Hrepphólakirkju þar sem Kirkjukór Hrunaprestakalls söng lög Sigurðar. Hátíðarhöldin héldu svo áfram í Félagsheimili Hrunamanna þar sem sýndar voru myndir úr lífi tónlistarmannsins, fjölskyldumannsins og bóndans og lífshlaup hans rakið. Þeir flytjendur sem fram komu á sunnudeginum voru nemendur úr Tónlistarskóla Árnesinga, Kór eldri Hrunamanna, Kór Flúðaskóla, Karlakór Hreppamanna og Kirkjukór Hrunaprestakalls en Edit Molár er stjórandi kóranna. Tvö barnabarna Sigurðar sungu einsöng, þau Kristjana Skúladóttir og Björgvin Magnússon. Heimir Sigurðsson og Auður Grétarsdóttir fluttu einnig tvö af lögum langafa síns á píanó.

Mikið að þakka

"Þetta var alveg stórkostlegt og hefði ekki verið mögulegt ef ekki hefði komið til ótrúlegt þrekvirki sem Edit Molnár, tónlistarstjóri hátíðarinnar, sýndi við allan undirbúning en Edit átti hugmyndina að þessari aldarminningarhátíð," segir María Magnúsdóttir, sonardóttir Sigurðar. "Það ber einnig að þakka öllu kórfólkinu sem lagði mikið af mörkum til að gera tónleikana mögulega. Það er dýrmætt hve allt þetta fólk var jákvætt að taka þátt í þessu með okkur og fyrir það erum við í fjölskyldunni óskaplega þakklát," segir María.

Sigurður var afkastamikið tónskáld og kórstjóri, organisti var hann við sóknarkirkju sína, Hrepphólakirkju, í um 60 ár og síðustu starfsár sín einnig í Hrunakirkju.

Það þarf vart að taka fram hve dýrmætt var fyrir byggðarlagið að hafa slíkan hæfileikamann innan raða sinna. Sigurður fékk heiðursviðurkenningu fyrir tónlistarstörf, veitt úr Minningarsjóði Egils Gr. Thorarensen 1969. Hann var sæmdur Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og var gerður heiðursborgari Hrunamannahrepps 1987. Sama ár var hann gerður heiðursfélagi Ungmennafélags Hrunamannahrepps og Tónlistarfélags Árnessýslu og 1988 var hann gerður heiðursfélagi Landssambands blandaðra kóra.

Í hnotskurn
» Alls tóku 260 kórfélagar og tónlistarmenn þátt í að flytja dagskrá til minningar um Sigurð Ágústsson frá Birtingaholti, á tvennum tónleikum á Flúðum og við messu í Hrepphólakirkju.
» Öll lögin á efnisskrá hátíðarinnar, alls um 50 talsins, voru verk Sigurðar við eigin texta og annarra auk útsetninga hans.
» Sigurður fæddist 13. mars 1907 og lést 12. maí 1991.