SJÓNVARPSSTÖÐIN Sýn hefur tryggt sér sýningarréttinn á Formúlu 1-kappakstrinum. Útsendingar frá keppnunum og tímatöku verða í opinni dagskrá.

SJÓNVARPSSTÖÐIN Sýn hefur tryggt sér sýningarréttinn á Formúlu 1-kappakstrinum. Útsendingar frá keppnunum og tímatöku verða í opinni dagskrá. Samkvæmt upplýsingum 365 miðla er sýningarrétturinn til þriggja ára og tekur gildi frá og með mótaröðinni sem hefst í ársbyrjun 2008 og stendur til loka ársins 2010. Að sögn Hilmars Björnssonar, sjónvarpsstjóra Sýnar, var það skilyrði fyrir samningunum að keppnin væri í opinni dagskrá.

Ríkissjónvarpið hefur verið með útsendingarréttinn á Formúlu 1-kappakstrinum á undanförnum árum. Í fréttatilkynningu frá 365 miðlum segir að Formúlan hafi verið eitt vinsælasta íþróttaefni sem í boði er í íslensku sjónvarpi og vinsældir þess farið vaxandi með ári hverju.

"Með tilkomu Formúlunnar á Sýn verða allri umgjörð keppninnar, æfingum, baksviði og öðrum fréttum gerð mun betri skil en áður hefur tíðkast hér á landi. Þá er stefnt að því að bjóða upp á öfluga sjálfstæða dagskrárgerð í tengslum við Formúluna, meðal annars beint frá mótsstöðum.

Þessi nýja þáttagerð verður sérstök þjónusta við áskrifendur Sýnar, en útsendingar frá keppnunum sjálfum og tímatöku verða í opinni dagskrá," segir þar.

Ekki fæst uppgefið hvað Sýn borgar fyrir sýningarréttinn þar sem um trúnaðarmál er að ræða.