Varnarmúr Hreggviður Magnússon, ÍR-ingur, reynir að skora gegn öflugri vörn KR-inga þar sem Edmond Azemi og Darri Hilmarsson eru til varnar. ÍR-ingum gekk illa að ráða við varnarleik KR, sérstaklega í þriðja leikhluta.
Varnarmúr Hreggviður Magnússon, ÍR-ingur, reynir að skora gegn öflugri vörn KR-inga þar sem Edmond Azemi og Darri Hilmarsson eru til varnar. ÍR-ingum gekk illa að ráða við varnarleik KR, sérstaklega í þriðja leikhluta. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
DAUÐIR kaflar ÍR-inga þegar KR-ingar skelltu á þá stífri vörn urðu þeim að falli þegar liðin mættust í Vesturbænum í gærkvöldi í oddaleik um að komast í undanúrslit Íslandsmótsins.

DAUÐIR kaflar ÍR-inga þegar KR-ingar skelltu á þá stífri vörn urðu þeim að falli þegar liðin mættust í Vesturbænum í gærkvöldi í oddaleik um að komast í undanúrslit Íslandsmótsins. Í samtals 15 mínútur alls sáu Breiðhyltingar varla til sólar gegn grimmri vörn Vesturbæinga, sem skoruðu 40 stig gegn 7 og það gerði gæfumuninn í 91:78 sigri KR, sem fær Snæfell í heimsókn en nýbakaðir bikarmeistarar ÍR eru komnir í sumarfrí.

Eftir Stefán Stefánsson ste@mbl.is

Heitt var í kolunum strax í byrjun og eftir þrjár mínútur kom fyrsta tæknivillan. Heimamenn náðu þó fyrr að komast á skrið, sem skilaði naumu forskoti en það þurfti ekki mikið til að gestirnir sneru taflinu við enda höfðu þeir níu stiga forskot eftir fyrsta leikhluta, 29:18. Darri Hilmarsson gaf tóninn fyrir KR í öðrum leikhluta með þriggja skota körfu og félagar hans hertu rækilega á varnarleiknum. Það skilaði þeim fráköstum auk þess að brjóta niður baráttuanda ÍR-inga, sem skoruðu aðeins úr tveimur vítaskotum fyrstu fimm mínúturnar á meðan KR skorar 17 stig. Þá tók þjálfari ÍR leikhlé sem dugði til að klippa á stemningu heimamanna og einnig til að rífa upp baráttuanda sinna manna, sem náðu 43:39 forystu í hálfleik með ærinni fyrirhöfn.

Þriðji leikhluti martröð

Þriðji leikhluti var sannkölluð martröð fyrir Breiðhyltinga. KR-ingar náðu að einbeita sér algerlega að vörninni og brutu bókstaflega niður sóknarleik ÍR. Þegar Pálmi Freyr Sigurgeirsson tók síðan til sinna ráða og skoraði grimmt fyrir KR ríkti örvænting og ráðaleysi í herbúðum gestanna, enda skoruðu þeir aðeins 5 stig í þriðja leikhluta, þar af þrjú af vítalínunni. KR-ingar náðu mest 20 stiga forskoti í fjórða leikhluta en fóru þá að fylgjast með stigatöflunni og klukkunni svo að ÍR-ingar náðu að saxa forskotið niður í tíu stig. Þeir freistuðust síðan til að brjóta ítrekað á KR-ingum til að stöðva leikinn og taka áhættu á vítanýtingu þeirra en varð ekki kápan úr því klæðinu.

Okkar að sprengja upp leiki

"Við vorum ósannfærandi í vörn og sókn en þegar vörnin small saman og menn hættu að vera hálfu skrefi of seinir fáum við hraðaupphlaupin í kjölfarið en það er einmitt okkar leikur; vörn, hraðaupphlaup og sprengja upp leikinn," sagði Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR, eftir leikinn. Hann var ekki sáttur við að hans menn væru á köflum ekki á tánum og misstu forystuna. "Menn hætta að spila af sama krafti og ætla að fara að taka langar sóknir í stað þess að bæta í. Þetta er eitthvað sem við þurfum að laga. Við mætum Snæfellingum og það verða hörkuviðureignir. Þeir eru með hörkulið og fengu fyrir tímabilið tvo atvinnumenn, sem voru valdir bestir í fyrra. Við höfum heimavöllinn og verðum að nýta hann, það gengur ekki að gefa leik eins og í fyrsta leiknum við ÍR. Við lögðum í hörkuleiki við gott lið ÍR og gott að sjá að borgin á svoleiðis lið." Tyson Patterson var atkvæðamikill hjá KR, stýrði sókninni af krafti, gaf 10 stoðsendingar, tók 14 fráköst og skoraði 17 stig en hann þraukaði allar fjörutíu mínútur leiksins. Jeremiah Sola var einnig drjúgur 7 fráköst, 4 varin skot og 20 stig en skotanýting hans var mjög góð. Pálmi Freyr og Skarphéðinn Ingason áttu einnig ágæta kafla eins og Fannar Ólafsson. "Við spiluðum frekar illa í fyrri hálfleik, gáfum of mikið af opnum færum," sagði Fannar eftir leikinn. "Við vissum að ÍR-ingar kæmu sterkir og að þetta yrði hörkuleikur en það kom ekki til greina að þeir fengju að vinna okkur aftur á heimavelli. Þó að þeir séu með frábært lið erum við besta varnarliðið í dag og um leið og við settum í lás í þriðja leikhluta, var erfitt að vinna okkur. Þá fórum við stíga þá út í teignum og hættum að gefa þeim varnarfráköst, sem skilaði okkur líka hraðaupphlaupum og opnum skotum, sem er lykill að öllu sem við gerum."

Ég er fúll

ÍR-ingum tókst ekki að brjótast út úr vörn KR og supu seyðið af því. Að vísu var mjög hart tekið á þeim en því máttu þeir búast við. Hittnin var heldur ekki sem best, 18 af 51 úr teignum og 7 af 23 þriggja stiga skotum rötuðu í körfuna. Mikið mæddi á Nate Brown, sem lék í 40 mínútur, tók 10 fráköst, gaf 7 stoðsendingar og skoraði 14 stig. Hreggviður Magnússon skoraði 21 stig og tók 6 fráköst en sást að öðru leyti minna, eins og skyttan Steinar Arason, sem skoraði úr einu af fjórum 3ja stiga skotum sínum, fékk reyndar einnig þrjú vítaskot eftir að brotið var á honum og skoraði úr öllum.

"Ég er rosalega fúll," sagði Jón Arnar Ingvarsson, þjálfari ÍR, eftir leikinn. "Fyrst og fremst er ég óánægður með mitt lið að það skyldi ekki gera út um leikinn en við töpum þessum leik í þriðja leikhluta þegar við vorum ekki alveg tilbúnir. Þá var vörn KR eins og veggur inni í teignum en það var líka ákveðið að dæma ekki á neitt á móti þeim. Það var þá mikið ósamræmi í dómum og gerði að verkum að við duttum út úr leiknum," bætti Jón Arnar við og ekki laust við að nýlegur bikarmeistaratitill skyggði á tapið, svona rétt eftir leik. "Ég er óánægður með að við skyldum ekki komast lengra í þessari úrslitakeppni, ég tel að við séum með lið til þess. Við erum auðvitað ánægðir með bikarinn en þetta voru vonbrigði."