Kynningin Ásýnd Mílu var kynnt í gær.
Kynningin Ásýnd Mílu var kynnt í gær. — Morgunblaðið/Ásdís
MÍLA er nafn nýs fyrirtækis sem stofnað hefur verið um rekstur, uppbyggingu og viðhald fjarskiptanets Símans. Míla hefur formlega rekstur hinn 1. apríl næstkomandi en stofnun fyrirtækisins var samþykkt á aðalfundi Símans í síðustu viku.

MÍLA er nafn nýs fyrirtækis sem stofnað hefur verið um rekstur, uppbyggingu og viðhald fjarskiptanets Símans. Míla hefur formlega rekstur hinn 1. apríl næstkomandi en stofnun fyrirtækisins var samþykkt á aðalfundi Símans í síðustu viku. Þá runnu tilteknir eignarhlutar í Símanum og dótturfélögum inn í sérstakt hlutafélag, Skipti hf., sem verður móðurfélag samstæðunnar.

Í tilkynningu segir að Míla taki við þeirri starfsemi sem áður tilheyrði heildsölu Símans, viðhaldi og rekstri á fjarskiptanetinu og áframhaldandi þróun og uppbyggingu á því.

"Fjarskiptanet Mílu byggist á stofnneti, sem er eins konar burðarlag fyrir öll fjarskiptakerfin og aðgangsneti sem tengir viðskiptavini Mílu inn á fjarskiptakerfin. Aðgangsnetið byggir að grunni til á koparlínum, ljósleiðurum og kóaxstrengjum," segir í tilkynningunni. Þá kemur fram að nærri öll fyrirtæki og heimili landsins séu tengd koparlínukerfi Mílu. Einnig segir að á fjarskiptaneti Mílu séu öll sambönd fyrir almenna símaumferð, innanlands og til útlanda, sambönd fyrir GSM- og NMT-farsímakerfi viðskiptavina símafyrirtækjanna og gagnasambönd. Ennfremur reki Míla flutningskerfi að sendum nær allra útvarps- og sjónvarpsstöðva í landinu.

Starfsmenn Mílu eru 220 og framkvæmdastjóri þess er Páll Á. Jónsson.