Ólöf Arnalds.
Ólöf Arnalds. — Morgunblaðið/Kristinn
ÓLÖF Arnalds heldur útgáfutónleika á NASA við Austurvöll í kvöld. Ólöf gaf nýverið út sína fyrstu sólóplötu, Við og við . Platan hefur fengið góða dóma og fékk meðal annars fullt hús, eða fimm stjörnur, hér í Morgunblaðinu.

ÓLÖF Arnalds heldur útgáfutónleika á NASA við Austurvöll í kvöld.

Ólöf gaf nýverið út sína fyrstu sólóplötu, Við og við . Platan hefur fengið góða dóma og fékk meðal annars fullt hús, eða fimm stjörnur, hér í Morgunblaðinu. Ólöf er nýkomin heim frá Berlín þar sem hún hélt tónleika, en hún spilaði á tónleikum á Akureyri í gær og ætlar svo að heiðra Ísfirðinga með nærveru sinni á laugardagskvöldið.

Fyrir tónleikana í kvöld verður komið fyrir stólum á dansgólfinu á NASA svo gestir geti notið tónleikanna sómasamlega. Húsið verður opnað klukkan 20 en tónleikarnir hefjast klukkan 21. Forsala aðgöngumiða er í 12 tónum, Skólavörðustíg 15 og er miðaverð 1.000 krónur.

Toggi á Domo

Tónlistarmaðurinn Toggi, sem gaf út sína fyrstu sólóplötu í fyrra, Puppy , heldur tónleika ásamt hljómsveit sinni á Domo, Þingholtsstræti 5, í kvöld. Sérstakir gestir á tónleikunum verða félagar úr Drengjakór Breiðholts. Húsið verður opnað klukkan 21 og miðaverð er 500 krónur.

Royal Fortune og félagar á NASA

Hljómsveitin Royal Fortune heldur tónleika á NASA annað kvöld, fimmtudagskvöld, en auk hljómsveitarinnar koma þau Lay Low og VilHelm fram á tónleikunum. Royal

Fortune er skipuð þeim Grétari, Sigurbirni, Skúla, Vigni og Þráni sem hver um sig keppist við að plokka, slá á og blása í hvert það hljóðfæri sem er næst þeim þá stundina.

VilHelm er söngvaskáld sem setur saman lög á kassagítarinn, lög sem fjalla um ást, losta, líf og dauða, en VilHelm var forsprakki

hljómsveitarinnar 200.000 naglbíta. Það er hins vegar Lay Low sem heldur tónleikana, en hún hefur vakið mikla athygli fyrir fyrstu plötu sína, Please Don't Hate Me . Lay Low hélt síðast eigin tónleika í Fríkirkjunni á síðasta ári, en þar komust færri að en vildu. Miðaverð á tónleikana er 450 krónur og verður húsið opnað klukkan 21.

Haukur Gröndal á Domo

Kvartett Hauks Gröndal ætlar að leika nokkrar af perlum djassbókmenntanna frá 4. og 5. áratugnum á Domo annað kvöld, en á tónleikunum verður sérstök áhersla á lög sem saxófónleikarinn Lester Young gerði ódauðleg.

Kvartettinn er skipaður þeim Hauki Gröndal á tenórsaxófón, Ásgeiri Ásgeirssyni á gítar, Þorgrími Jónssyni á kontrabassa og Erik Qvick á trommur. Þeir félagar munu ekki láta staðar numið að loknum tónleikum á Domo því fyrirhugað er að leika á Grundarfirði á föstudaginn og í Stykkishólmi á laugardaginn.

Tónleikarnir í kvöld hefjast hins vegar klukkan 21 og er aðgangseyrir 1.000 krónur.