Díana Guðjónsdóttir
Díana Guðjónsdóttir
VONIR Valskvenna um að veita Stjörnunni keppni um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik eru að líkindum endanlega úr sögunni eftir óvænt tap þeirra gegn HK í Digranesi í gærkvöld, 29:27.

VONIR Valskvenna um að veita Stjörnunni keppni um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik eru að líkindum endanlega úr sögunni eftir óvænt tap þeirra gegn HK í Digranesi í gærkvöld, 29:27. Kópavogsliðið hefur verið Val erfiður ljár í þúfu í vetur og náð þremur stigum af Hlíðarendaliðinu en liðin skildu jöfn í Laugardalshöllinni fyrr í vetur. Valur situr eftir í þriðja sætinu með 28 stig, fimm stigum á eftir Stjörnunni sem á auk þess leik til góða. HK lyfti sér uppfyrir Fram og í fimmta sæti deildarinnar með 17 stig.

Leikurinn var í járnum lengst af. HK byrjaði betur en Valur náði góðum kafla þegar leið á fyrri hálfleikinn og var yfir að honum loknum, 16:15. Liðin skiptust síðan á um að vera með forystuna í síðari hálfleik. HK komst í 22:20 en Valur sneri blaðinu við og var yfir, 26:24, þegar skammt var til leiksloka. HK-konur skoruðu síðan fimm mörk gegn einu á lokakaflanum og tryggðu sér sigurinn.

Aukse Vysniauskaité skoraði sjö mörk fyrir HK og þær Arna Sif Pálsdóttir og Elísa Ósk Viðarsdóttur gerðu sex mörk hvor. Arna Sif skoraði fjögur markanna úr vítaköstum og var með 100 prósent nýtingu.

"Nýtingin á vítaköstunum hefur verið hræðileg hjá okkur í vetur og að meðaltali hafa fjögur slík farið í súginn í hverjum leik. Ég hótaði því að vera sjálf í hópnum í kvöld og taka vítaköstin en Arna var staðráðin í að skora úr þeim og gerði það," sagði Díana Guðjónsdóttir, þjálfari HK, við Morgunblaðið.

Drífa Skúladóttir stóð upp úr hjá Val og skoraði níu mörk. Sigurlaug Rúnardóttir gerði fimm mörk og aðrar minna. Greinilegt er að Valsliðið saknar Ágústu Eddu Björnsdóttur sem er komin í barnsburðarleyfi og spilar ekki meira með á þessu keppnistímabili.