Alexander McCall Smith – Dream Angus. Canongate gefur út 2007.

Alexander McCall Smith er þekktastur fyrir bækur sínar um Precious Ramotswe, einkaspæjarann þéttvaxna í Botswana. Hann hefur þó skrifað margt fleira, er reyndar með afbrigðum afkastamikill rithöfundur - til er sería um íbúa í húsi einu í Edinborg, önnur þriggja binda sem segir frá ævintýrum sérvitringa og enn önnur sem fjallar um uppákomur í lífi heimspekings. Þrátt fyrir það er hann alla jafna talinn léttmetissmiður og því kom óneitanlega nokkuð á óvart að Jamie Byng fékk hann til að skrifa eina af bókunum í Goðsagna-seríunni, enda eru höfundar í þeirri röð allajafna tilraunakenndari (og óvinsælli) en Smith.

Hvað sem því líður þá stendur Smith sig einkar vel í sögunni af Angus, guði drauma og ástar. Í keltneskri goðafræði var hann sonur guðsins Dagda og vatnadísarinnar Boann, en alinn upp af Midir bróður sínum. Dagda er sjálfselskur og siðblindur, eins og guða er siður, en sér ekki við Angus eins og Smith rekur einkar skemmtilega í sögunni. Saman við þjóðsöguna fléttar hann síðan sögur af ástum og örlögum mannanna og því hvernig Angus kemur við sögu, lymskufullur en þó með gott eitt í hyggju.

Það er mikill kostur við Smith hvað hann skrifar tæran og beinskeyttan stíl, lítið um upphrópanir og hávaða en því meira af þögn og niðurbældri spennu – svona eins og að horfa á rússneska Chekov-mynd þar sem þögnin er í aðalhlutverki. Ristir kannski ekki eins djúpt, en nógu djúpt þó.

Árni Matthíasson

Höf.: Árni Matthíasson