Bardukha Ástvaldur, Birgir, Hjörleifur og Steingrímur. Jakub Zicha, heiðursfélagi sveitarinnar og tilvonandi meðleikari, útsetti hluta laganna.
Bardukha Ástvaldur, Birgir, Hjörleifur og Steingrímur. Jakub Zicha, heiðursfélagi sveitarinnar og tilvonandi meðleikari, útsetti hluta laganna.
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is "ÞAÐ er miklu meira fjör í þessari þjóðlagatónlist en þeirri íslensku.

Eftir Bergþóru Jónsdóttur

begga@mbl.is

"ÞAÐ er miklu meira fjör í þessari þjóðlagatónlist en þeirri íslensku. Eftir að vikivakarnir voru bannaðir var ekkert eftir nema hægu og þungu lögin – eintómur vangadans en þarna austur frá er mikið sprell, sungið í sjö áttundu og alls konar takttegundum," segir Helgi Bragason, stjórnandi Kammerkórs Hafnarfjarðar. Kórinn heldur tónleika í Hafnarborg í kvöld og annað kvöld klukkan 20 ásamt Balzamer-sveitinni Bardukha. Á efnisskránni verða þjóðlög frá Austur-Evrópu.

Helgi segir tónlistina á tónleikunum einkennast af fjöri, hraða og takttegundum sem Íslendingar séu ekki vanir. "Íslendingar eiga erfitt með að syngja annað en tvískiptan takt – ef það er ekki þúfnagangurinn, þá er það erfitt. Svo er þetta arfahratt," segir Helgi og hlær.

Kammerkór Hafnarfjarðar og Bardukha hafa áður flutt íslensk þjóðlög á tónleikum bland við austur-evrópska dansa. "Nú langaði okkur að vera eingöngu með austur-evrópska tónlist. Við erum með lög frá Tékklandi, Mæri, Slóvakíu, Búlgaríu, Króatíu og Serbíu á margvíslegum tungumálum. Þessi tónlist er svolítið sígaunaleg og við syngjum á sex eða sjö tungumálum sem við skiljum ekkert í," segir Helgi og bætir því við að það hafi verið heilmikil vinna að fara í gegnum textana.

Balzamer-tónlistin, sem er Bardukha-leikur, á einmitt rætur sínar að rekja til austur-evrópskrar, arabískrar og persneskrar þjóðlagahefðar auk sígaunatónlistar. Í sveitinni eru Hjörleifur Valsson fliðluleikari, Ástvaldur Traustason harmonikkuleikari, Birgir Bragason kontrabassaleikari og arabíski handtrommuleikarinn S.G. – öðru nafni Steingrímur Guðmundsson.