Sigurbjörn Þorkelsson
Sigurbjörn Þorkelsson
Sigurbjörn Þorkelsson fjallar um sorgina: "Það er sárt að sakna, en það er gott að gráta. Tárin eru dýrmætar daggir, perlur úr lind minninganna. Tárin mýkja og tárin styrkja."

ÞAÐ er svo þungt að missa. Tilvera er skekin á yfirþyrmandi hátt. Angistin fyllir hugann, örvæntingin og umkomuleysið er algjört. Tómarúmið hellist yfir, tilgangsleysið virðist blasa við.

Það er svo sárt að sakna en það er svo gott að gráta. Tárin eru dýrmætar daggir, perlur úr lind minninganna. Minninga sem þú einn átt og enginn getur afmáð eða frá þér tekið.

Tárin mýkja og tárin styrkja. Í þeim speglast fegurð minninganna. Gráttu, "því að sælir eru sorgbitnir því að þeir munu huggaðir verða". Matteus 5:4. Og sælir eru þeir sem eiga von á Krist í hjarta því að þeir munu lífið erfa og eignast framtíð bjarta.

Sorg

Þótt andlitið kunni að gleðjast um stund, þá getur hjartað grátið. Ef þú vilt komast hjá því að syrgja og sakna skaltu hætta að elska. Því þeir missa mest sem mikið elska. Sá sem ekki elskar missir ekki neitt, en fer mikils á mis.

Leyfðu sorginni að hafa sinn tíma og fara sinn eðlilega farveg. Svo mun það gerast, smátt og smátt, að þú gefst upp fyrir henni og minningarnar björtu og góðu komast að, taka við og búa með þér. Ómetanlegar minningar sem enginn getur frá þér tekið.

Að harðasta vetrinum loknum fer svo að vora og yljandi vindar taka um þig að leika og litskrúðug ólýsanlega fögur blóm gera vart við sig hvert af öðru. Þau taka að spretta umhverfis lind minninganna.

Blessaðir séu þeir sem gefa sér tíma til að strjúka vanga og þerra tár af kinn. Bara með því að faðma og vera.

Fegraðu umhverfi þitt með gjöfum. Stráðu fræjum kærleika og umhyggju hvar sem þú ferð. Og þín verður minnst sem þess sem elskaði, þess sem bar raunverulega umhyggju fyrir fólki.

Sýndu fólkinu í kringum þig umhyggju og virðingu. Gefðu því af tíma þínum. Því það er of seint að sýna þeim kærleika, virðingu, umhyggju og ást eftir að þau eru farin, svo að þau fái notið þess. Segðu fólkinu þínu hvað þér þykir mikið til þeirra koma. Láttu þau finna hve mikils þú metur þau.

Í sorgarhúsi

Forðastu ekki þau sem sorgin hefur bitið. En mundu að spakmæli, reynslusögur, viðmið eða of mörg orð yfirleitt eiga ekki við í húsum sem sorgin hefur sótt heim.

Hlustaðu bara, faðmaðu og vertu, í þolinmæði. Því að þegar þú heimsækir sorgbitna þarftu ekki endilega að staldra svo lengi við. En, vertu á meðan þú ert, án þess að vera sífellt að líta á klukkuna.

Höfundur er rithöfundur og framkvæmdastjóri Laugarneskirkju.

Höf.: Sigurbjörn Þorkelsson fjallar um sorgina