Hátíð Kátir starfsmenn verslana bjóða viðskiptavini velkomna í Borgarnes sem á 140 ára verslunarafmæli.
Hátíð Kátir starfsmenn verslana bjóða viðskiptavini velkomna í Borgarnes sem á 140 ára verslunarafmæli.
Eftir Hörpu Lind Hrafnsdóttur BORGARNES á 140 ára verslunarafmæli á morgun, fimmtudaginn 22. mars, en þann dag fékk bærinn verslunarleyfi. Tímamótunum verður fagnað með miklum veisluhöldum í bænum og standa þau fram á laugardag.

Eftir Hörpu Lind Hrafnsdóttur

BORGARNES á 140 ára verslunarafmæli á morgun, fimmtudaginn 22. mars, en þann dag fékk bærinn verslunarleyfi. Tímamótunum verður fagnað með miklum veisluhöldum í bænum og standa þau fram á laugardag.

Páll Brynjarsson, bæjarstjóri í Borgarbyggð, býður öllum í afmælisveisluna en afmælisdagurinn hefst með skrúðgöngu frá Hyrnutorgi klukkan þrjú niður að Landnámssetri. Þar mun afmælisveislan fara fram með ýmsum skemmtiatriðum og boðið verður upp á risaafmælisköku í tilefni dagsins. Á föstudag og laugardag verða ýmsar uppákomur í verslunum og veitingastöðum og viðskiptavinir njóta góðs af ýmsum tilboðum.

Mikil uppbygging

Páll segir að mikil uppbygging hafi átt sér stað í Borgarnesi undanfarin ár en tæplega fjögur þúsund manns búa í sveitarfélaginu. Í bænum er að finna tuttugu verslanir, auk fjölda annarra þjónustufyrirtækja. Nú þegar eru um 130 íbúðir í byggingu í bænum og mun fleiri ef taldar eru framkvæmdir sem eiga sér stað t.d á Hvanneyri, Bifröst og í Reykholti. Fleiri íbúðahverfi eru á teikniborðinu og standa viðræður yfir um nær tvö þúsund manna byggð við Borg á Mýrum sem er nær tvöföldun á núverandi íbúafjölda Borgarness. Nýr einkarekinn menntaskóli mun einnig taka til starfa í haust, Menntaskóli Borgarfjarðar, og gerir hann nemendum kleift að ljúka náminu á þremur árum.

Einnig er nóg að gera á menningarsviði Borgnesinga, þrjár leiksýningar eru í gangi hjá þremur leikfélögum í sveitarfélaginu og í Safnaðarhúsi Borgarfjarðar fer fram sögusýning verslunar í bænum. Ekki má gleyma starfsemi Landnámssetursins, þar sem sögusýning Egils Skalla-Grímssonar hefur verið að undanförnu ásamt fjölda annarra viðburða.

"Það er um að gera fyrir fólk að bregða sér í Borgarfjörð um helgina, nýta sér tilboð verslana og kíkja í Landnámssetrið," segir Páll og vonast til að sem flestir komi í heimsókn.