Það hefur gengið á ýmsu hjá skíðasvæðunum að undanförnu vegna snjóleysis. Engu að síður fengu þau auglýsingaverðlaunin, lúðurinn, á dögunum fyrir að keyra snjó í bæinn og setja skilti í hrúguna: "Bláfjöll 30 km".

Það hefur gengið á ýmsu hjá skíðasvæðunum að undanförnu vegna snjóleysis. Engu að síður fengu þau auglýsingaverðlaunin, lúðurinn, á dögunum fyrir að keyra snjó í bæinn og setja skilti í hrúguna: "Bláfjöll 30 km". Af því tilefni orti "Bláfjallaskáldið" Grétar Hallur Þórisson, forstöðumaður Skíðasvæðanna:

Ég næstum því af göflum gekk

við grimmdarmeðferð slíka.

Á lúðurinn í fyrstu fékk

en fékk svo gripinn líka.

Hann bætti við:

Fjalla tryllti trúðurinn

í tómu skulda bauki.

Loksins fékk á lúðurinn

og Lúðurinn að auki.

Við ríkjandi aðstæður kveðst forstöðumaðurinn þurfa að bera allflestar ákvarðanir undir rekstrarstjórn og af þeim sökum hafi hann upplifað að hann ráði ansi fáu núorðið. Starfsheitið Fáráður leiti því á hugann.

Starfs míns blaktir bláþráður

berst þó áfram sárþjáður.

Grétar Fjallafáráður

festir við sig smágráður.

Bjartsýnin er hins vegar meiri hjá öðrum, eins og kemur fram í vísu Rúnars Kristjánssonar á Skagaströnd um nýfallinn dóm:

Engin merki um auraskort

eru í kringum Bubba.

Hamingjan er krítarkort

krýnir fleiri en lubba.

pebl@mbl.is

Höf.: pebl@mbl.is