Eyjólfur Agnarsson fæddist á Ísafirði 22. júlí 1944. Hann andaðist á St. Jósefsspítala 23. febrúar síðastliðinn og var útför hans gerð frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði 1. mars.

Elskulegur bróðir, vinur og mágur er horfinn á braut, alltof ungur, ekki nema 62 ára. Eyjólfur var yngstur fjórtán systkina og skrítið er það að ég sem þessar línur rita skuli vera orðin elst. Við fæddumst átta stúlkur og sex drengir, en ein stúlkan dó í bernsku og heiti ég eftir henni. Við sem lifðum vorum því þrettán en erum nú sex eftir á lífi, fimm stúlkur og einn bróðir.

Ég vil þakka Sigmundi bróður og hans elskulegu konu fyrir alla hjálpina. Þau komu frá Ólafsfirði til að létta undir með Sigríði mágkonu og voru hjá Eyjólfi til hinstu stundar. Þeir bræðurnir voru mjög nánir eftir að þeir fullorðnuðust.

Ég ætla ekki að fara yfir lífshlaup Eyja brósa, en það kallaði ég hann alltaf. Ég vil bara þakka honum allan hans kærleik sem hann sýndi okkur gamla settinu, eins og við grínuðumst oft með, og allar hringingarnar bæði hérlendis og erlendis.

Alltaf þegar við vorum í Keflavík hringdi hann og sagði: "Hvernig er heilsan og hvernig er veðrið hjá ykkur í dag? Það er sól og blíða í firðinum, drífið ykkur í heimsókn." Og alltaf þegar við komum í Hafnarfjörðinn urðum við að þiggja veitingar hjá Siggu minni og þá spurði vinurinn hvort að við ættum að fara í Húsdýragarðinn eða Grasagarðinn, þannig að alltaf varð úr þessu heilmikil upplyfting.

Einu sinni þegar við vorum í kaffi hjá honum og Siggu spurði hann hvort við ættum að kíkja á Agga bróður. Þá var brennt í kirkjugarðinn í Fossvogi og alltaf var leiðið hans jafn fallegt því Eyi og Sigga hugsuðu um það. Hann var svo einstaklega kærleiksríkur.

Eyi og Sigga komu í heimsókn til okkar á Spáni. Þau leigðu íbúð rétt hjá okkur og áttum við yndislegar stundir með þeim. Mikið keyrt, mikið skoðað og mikið borðað. Við Garðar fórum líka með þeim í sumarbústað í Meðallandi, það átti að reyna að veiða. Eyi var búinn að fá tvær bleikjur þegar við komum og þær voru borðaðar, Sigga kryddaði og Eyi grillaði.

Okkur eru svo ofarlega í minni allar góðu stundirnar sem við áttum saman og öll þessi vinsemd og vissa að það væri alltaf verið að fylgjast með manni.

Eyjólfur var sérstakt snyrtimenni og alltaf svo smekklega klæddur. Þeim hjónunum þótti sérlega gaman að dansa og held ég að þau hafi síðast dansað í brúðkaupi sem við vorum í hjá frænku okkar síðastliðið sumar.

Elsku besti bróðir minn, nú þjáist þú ekki meira og það hefur verið vel tekið á móti þér.

Við Garðar biðjum góðan guð að styrkja og vaka yfir Siggu, Bryndísi, Agnari, Dagbjörtu, Gunnari, Sóleyju litlu, Höskuldi og Katrínu.

Farðu í friði,

friður guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V. Briem.)

Svava.