Ofurhetjur Vinsælar allt frá lokum Síðari heimsstyrjaldarinnar
Ofurhetjur Vinsælar allt frá lokum Síðari heimsstyrjaldarinnar
Eftir Þormóð Dagsson thorri@mbl.is ALLT frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hefur grímuklæddum ofurhetjum fjölgað ört í baráttunni við glæpi og ill öfl.

Eftir Þormóð Dagsson

thorri@mbl.is

ALLT frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hefur grímuklæddum ofurhetjum fjölgað ört í baráttunni við glæpi og ill öfl. Hetjum eins og Captain America, Iron Man og Spiderman hefur yfirleitt verið tekið fagnandi af almenningi en þó hefur ávallt gætt einhverrar tortryggni í þeirra garð enda standa þær utan við samfélagið og yfirvöld, þær eru grímuklæddar og í rauninni algjörlega umboðslausar. Þær fara eigin leiðir í baráttunni við hið illa en ef eitthvað fer úrskeiðis – ef þeim verða á mistök og saklausir borgarar deyja eða heilu hverfin springa í loft upp af þeirra völdum – hver tekur þá ábyrgðina og svarar til saka?

Lögmætar hetjur

Á þessum síðustu og verstu tímum þegar ótti við hryðjuverk og tortryggni í garð náungans – sérstaklega ef hann er grímuklæddur – er á suðupunkti er krafan um lögmætar ofurhetjur orðin eitt helsta hitamálið í bandarískum stjórnmálum. Þannig er hið þjóðfélagslega ástand í teiknimyndasögunni Civil War, sem Marvel gefur út, en hún segir frá því hvernig helstu ofurhetjur Marvel-heimsins bregðast við þegar ríkisstjórn Bandaríkjanna hyggst koma í gegn lagafrumvarpi sem myndi gjörbylta tilveru allra grímuklæddra ofurhetja þar í landi. Frumvarpið kallast "Superhuman Registration Act" og er ætlað að skylda allar ofurmannlegar verur, grímuklæddar ofurhetjur – stökkbreyttar og aðrar – til að afhjúpa sig fyrir stjórnvöldum og skrá sig sem starfsmenn í þágu hins opinbera. Sem opinberir starfsmenn lúta þær boðum og bönnum stjórnvalda sem bera pólitíska ábyrgð á þeim gagnvart almenningi.

Þannig hljómar hin pólitíska lausn við umboðs- og stjórnleysi grímuklæddra ofurhuga og eins og gefur að skilja eru ofurhetjurnar ekki á eitt sáttar um þetta frumvarp. Spiderman óttast t.d. að afhjúpun á sér gæti stofnað lífi hans heittelskuðu Mary Jane í hættu og sömuleiðis frænku hans May. Fleiri ofurhetjur glíma við svipaðan ótta. Þá er það þyrnir í augum sumra hetja að stjórnvöld segi til um hvaða verkefnum þær eiga að sinna og þá sérstaklega hvaða verkefni þær eigi að láta í friði, t.d. ef aðkoma þeirra kæmi sér illa í pólitísku samhengi.

Stálin stinn

Til að koma í veg fyrir upplausn og klofning í ofurhetjuheiminum reynir Iron Man, öðru nafni Tony Stark, að sameina allar ofurhetjur í þeirri ákvörðun að gangast við frumvarpinu og hljóta þannig endanlega blessun samfélags og yfirvalda. Þrátt fyrir tilraunir sínar tekst Stark ekki vel til og hetjurnar klofna í tvær fylkingar; Iron Man fer fyrir þeim sem styðja frumvarpið og Captain America leiðir andspyrnuna. Mætast þá stálin stinn í stríði á milli fyrrum bandamanna og félaga.

Höfundurinn Mark Millar er hérna með ansi flotta sögu með epísku yfirbragði sem hefur ríkt sögulegt gildi í Marvel-heiminum. Glíma og togstreita súperhetjanna er sömuleiðis sett fram á trúverðugan máta en persónurnar eru á heildina litið afar vel skrifaðar. Þá hefur sagan að geyma fjölmargar tilvísanir í stöðu heimsmála í dag, einkum þær sem varða öryggismál og ekki síst hræðsluáróður fjölmiðla og stjórnvalda.