Eftir Guðmund Ragnar Björnsson: "FYRIR 40 árum síðan byggðu Íslendingar allar sínar tekjur á útflutningi fiskafurða sem var háður þeim sveiflum sem náttúran býður uppá."

FYRIR 40 árum síðan byggðu Íslendingar allar sínar tekjur á útflutningi fiskafurða sem var háður þeim sveiflum sem náttúran býður uppá. Síðan þá hefur önnur stoð verið rekin undir íslenskt atvinnulíf en það er álframleiðsla sem skilað hefur vaxandi tekjum í þjóðarbúið. Á allra síðustu árum hefur ferðaþjónustan orðið hin þriðja. Þessar þrjár greinar eru þær sem standa undir þjóðarbúinu.

Af útflutningsvörum vega sjávarafurðir 50% og ál 25% (heimild: Hagstofan.) Nýjasta hagnaðarvonin, fjármálaviðskipti, teljast ekki sem útflutningsvara enda ekki um virðisaukandi framleiðslu að ræða.

Virðisaukandi framleiðsla, það er framleiðsla þar sem vara er auðguð þ.e. gerð verðmætari en hún var fyrir, er sú framleiðsla sem hagvöxtur byggist á. Heildsala, smásala, sumar tegundir þjónustu og flutningur á fjármagni er ekki framleiðsla þar sem virðisaukning á sér stað. Á slíkri framleiðslu er yfirleitt ekki hægt að byggja heilt hagkerfi (undantekning gæti verið Mónakó) heldur þarf virðisaukandi framleiðslu. Danmörk er gott dæmi um slíkt þar sem smáiðnaður blómstrar með Evrópumarkaðinn galopinn og tilbúinn að taka við fullunnum hágæða iðnaðarvörum. Danir búa reyndar við það hagræði að þaðan kemst flutningabíll á innan við 20 tímum nánast hvert sem er í Evrópu. Þetta hefur leitt til mikillar framleiðsluhagræðingar á undanförnum árum þar sem japanskar framleiðsluaðferðir hafa verið teknar til handargagns í dönskum fyrirtækjum með þeim árangri að þrátt fyrir hátt launastig eru Danir samkeppnisfærir á sínum sviðum.

Á Íslandi er þörf fyrir að halda áfram að styrkja undirstöður hagkerfisins. Eins og margir lærðu í sunnudagaskólanum er ekki gáfulegt að byggja hús á sandi heldur þarf traustar undirstöður til að byggja fjármála- og þjónustuveldið á. Sjávarútvegurinn býður ekki upp á mikil sóknarfæri utan þess að hægt væri að ganga lengra í fullvinnslu og jafnvel pakkningu í neytendaumbúðir. Landbúnaðinn er eins og allir vita búið að setja á vonarvöl og virðist þurfa kraftaverk til að snúa þeirri þróun við og byggja upp þá grein á ný. Iðnaður fyrirfinnst á landinu en að mestu í smáum stíl fyrir utan áliðnað en hann er eins og sniðinn fyrir íslenskar aðstæður. Hér er að finna endurnýtanlega orkugjafa í vatnsorku sem nú finnst á sífellt færri stöðum í heiminum og góð hafnaraðstaða víða um land. Það er því upplagt að halda áfram uppbyggingu í áliðnaði hér á landi því það þýðir að Ísland verður stórt á þessum markaði með þeim hlunnindum sem því fylgja. Sérþekking og framleiðsla á fullunninni vöru úr áli getur verið hluti af framtíðinni.

Það er samt ekkert sem mælir á móti því að orkan verði nýtt í fjölbreyttan iðnað ef hugvit og fjármagn fæst til. Fjarlægð Íslands frá stórum mörkuðum mun þó ávallt stýra því hvað er hagkvæmt að framleiða hér á landi og því mun orkufrekur iðnaður trúlega ávallt vera hagkvæmasti kosturinn í því vali.

Undanfarið hefur margt verið ritað og rætt um stækkun álversins í Straumsvík og margt af því hefur verið gáfulegt en annað síður gáfulega mælt. Nú ber hins vegar svo við að ekki virðist vera neinn pólitískur stuðningur við framkvæmdina, a.m.k. ekki opinberlega. Svo virðist vera að stjórnmálamenn á Íslandi séu skíthræddir við að láta bendla sig við stóriðju á kosningavori á meðan það er rosalega "inn" að vera á móti. Í þessu tilfelli er ekki verið að ræða um jafn hrikalegar framkvæmdir og voru á Austurlandi heldur er raforkan sótt á marga staði og í Þjórsá eru nýttar eldri miðlanir. Hvað varðar mengun er það eina sem um er vert að tala aukning á útblæstri CO2 sem verður eðli málsins samkvæmt umtalsverð en það sem fólk gleymir er að ef ekki verður af stækkun hér verður byggt eða stækkað annars staðar í heiminum t.d. í Dubai. Hvað heldur fólk að verði orkugjafinn þar, sólarorka kannski? Álframleiðsla hér á landi minnkar hnattræna mengun CO2 umtalsvert og það er þangað sem við eigum að horfa.

Stækkum í Straumsvík! Annað er umhverfisslys.

Höfundur er sagnfræðingur, nemi í framleiðslutæknifræði og félagi í Hagur Hafnarfjarðar.

Höf.: Guðmund Ragnar Björnsson