Ey- eða ei-réttindi MIKIÐ gladdist ég í byrjun árs þegar ég las í Morgunblaðinu að Hríseyingar fengju loks frítt í ferjuna sína.

Ey- eða ei-réttindi

MIKIÐ gladdist ég í byrjun árs þegar ég las í Morgunblaðinu að Hríseyingar fengju loks frítt í ferjuna sína. Ég var svo uppnuminn í samfögnuði að ég hélt að fyrsti apríl væri haldinn hátíðlegur snemma þegar ég frétti að ætti að hækka vegatoll Vestmannaeyinga um rúmlega tíunda hlut. Í minni barnslegu trú hélt ég að sama væri í vændum fyrir okkur Vestmannaeyinga. En svo kom fyrsti febrúar og raunveruleikinn blasti við.

Samúðin hefur greinilega verið hjá Hríseyingum þar sem ferjan þeirra er þjóðvegur þeirra og auðvitað á þjóðvegurinn að vera ókeypis. Hjartanlega til hamingju, Hríseyingar! En þegar Vestmannaeyingar biðja um smákjötbita verðskulda þeir hærri vegatoll. Út af því að, svo er sagt, þeim eru allar leiðir opnar. Vestmannaeyingar geta tekið Herjólf, Bakkaflug og ríkisstyrkt Reykjavíkurflug. Ef ríkisstyrkt Reykjavíkurflug myndi virka gætu almennir Vestmannaeyingar tekið flugið án þess að brjóta sparibaukinn í hvert skipti.

Þar sem ég er námsmaður vil ég benda á að ég er námsmaður allt árið. Það að ég skuli vinna mér inn lífsviðurværið á sumrin þýðir ekki að ég geti spreðað peningum í munað eins og Herjólf. Námsmenn eru námsmenn allt árið, líka á sumrin og jafnvel í hálft ár eftir formlega útskrift. Sýnið manngæsku, kæru forráðamenn Herjólfs, og gerið vel við ,,æsku þessa lands".

Afsláttarkerfi Herjólfs virkar ekki þar sem afslátturinn er óverulegur. Tugþúsundir fara í einingakort hjá fjölskyldum og ekki má við hjá sumum. Dæmi eru um að fólk þurfi að skoða fjárhag sinn áður en lagt er í erindaferð upp á land. Hvaða brjálæði er það? Einstaklingar með lögheimili í Vestmannaeyjum eiga rétt á því að fá frítt í ferjuna sína, þjóðveg sinn. Við vitum öll, inni við beinið að samgöngur Vestmannaeyinga munu ekki breytast til batnaðar fyrr en umturnun verður í hugsunarhætti. Eitthvað eins og frítt í Herjólf eða göng til Eyja!

Daníel Steingrímsson

guðfræðinemi.

Bitið birki og beygt af vindum – til Atla Vigfússonar

Í FASTEIGNABLAÐI Morgunblaðsins hinn 19.3. er mynd af birki á dæmigerðu undanhaldi. Atli Vigfússon sendi þessa mynd með útskýringum. "Sandrok og þurrkar" nefnir hann sem eyðingaröfl...en gleymir frumorsökinni...kindinni og manninum. En það er einmitt ofnýting mannsins á gróðrinum, með hóflausri búfjárbeit fyrr og nú, sem orsakar þetta undanhald gróðurs og síðar eyðingu hans...með dyggri aðstoð veðurs og vinda.

Margrét Jónsdóttir.

Gullnisti tapaðist

GULLNISTI í svartri umgjörð, með konumynd, tapaðist mánudagsmorguninn 19. mars á leið frá Háteigsvegi með strætóleið 11 að Hlemmi. Finnandi vinsamlegast hringi í síma 5666184.

Svarað í síma 5691100 frá 10-12 og 13-15 | velvakandi@mbl.is