Eftir Arinbjörn Þorbjörnsson: "ÞAÐ er ánægjulegt til þess að vita hvað umræða um álver og virkjanir á Suðurlandi er með málefnalegum og upplýstum hætti."

ÞAÐ er ánægjulegt til þess að vita hvað umræða um álver og virkjanir á Suðurlandi er með málefnalegum og upplýstum hætti. Í það minnsta er hún ólík þeirri þöggun og skoðanakúgun sem viðgekkst á Austurlandi gagnvart þeim sem ekki hrifust af stóriðjuhugsjóninni. Alcan virðist hætt óvinsælum mútusendingum til Hafnfirðinga en aðstöðumunur grasrótarhreyfinga og erlends auðhrings í kosningabaráttu er samt sem áður sláandi.

Sem kunnugt er hótar Alcan lokun álverksmiðjunnar í Straumsvík, fáist gríðarleg stækkun ekki samþykkt. Sjálfur get ég ekki annað en óskað Hafnfirðingum til hamingju með að vera boðinn sá valkostur að losa bæinn sinn við risaálver sem rúmast varla lengur við hlið byggðarinnar. En það skýtur nokkuð skökku við að fyrirtæki, sem samkvæmt bókhaldi sínu malar gull, vilji hætta starfsemi. En mikill vill meira og engin spurning að lokunarhótunin eigi að vera skoðanamyndandi til að þvinga fram jákvætt svar bæjarbúa. Ef verksmiðjan lokar tekur það um 20 ár, en gott og vel, það er langur aðlögunartími til að þróa og byggja upp fjölþætta starfsemi í stað stóriðjunnar. Reyndar er miklu líklegra að álverið, með þessa fyrirtaks hafnaraðstöðu og lágmarks orkuverð, muni fremur þróa afurðir sínar meira en nú er gert til að auka verðmæti framleiðslunnar og jafnframt atvinnunnar sem þar er stunduð. Það er líka sú krafa sem þjóðin hlýtur að gera til fyrirtækisins, vilji það starfa til frambúðar í landinu, svo við sitjum ekki uppi með staðnaðan álrisa í frumframleiðslu heldur fyrirtæki sem er samstiga örum framförum í atvinnulífi og menntun þjóðarinnar. Það eru Hafnfirðingar sem móta framtíðarsýn bæjarfélagsins sem þeir búa í. Vonandi er hún ekki í þeim anda sem fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins lýsti fyrir nokkrum árum, þ.e. að framtíðaratvinnuuppbygging á Íslandi muni byggjast á stóriðju.

Á Íslandi er rafmagn til stóriðju boðið á útsöluverði sem álrisar heimsins vilja nú kasta sér á. Þannig eru íslensk stjórnvöld að undirbjóða og keppa við ýmis fjölmenn þróunarríki og ræna þau möguleikanum á að ná til sín þessari starfsemi. Þar býr almenningur víða við slök lífskjör, e.t.v. áþekk þeim sem íslenska þjóðin bjó við fyrir um hálfri öld. Þar er raunveruleg þörf á að bæta atvinnuástand og lífskjör fólks m.a. með atvinnuuppbyggingu sem hæfir menntunarstigi og atvinnulífi þjóðanna. Þar má nefna lönd í Suður-Ameríku og Asíu sem búa bæði yfir miklu vatnsafli og báxítnámum. Um sex tonn af báxíti þarf til að framleiða 1 tonni af áli þannig að álframleiðsla í löndum sem búa yfir báxítnámum sparar úthafsflutninga og mikla losun gróðurhúsalofttegunda. Endurvinnsla áls í heiminum virðist vera lítt unninn akur en hún þarf aðeins 5% þeirrar orku sem nýframleiðsla áls krefst. Því þurfum við ekki að hafa slæma samvisku þó við séum ekki tilbúin að afhenda náttúruperlur landsins til orku- og álfyrirtækja. Auk þess eru líkur til að á komandi áratugum verði bylting í nýtingu þeirra hreinu orkugjafa sem umlykja okkur daglega, eins og vindafls, sólarorku og sjávarfalla.

Bændur og íbúar á Suðurlandi standa frammi fyrir siðferðilegu álitamáli og bera mikla ábyrgð gagnvart sjálfum sér og komandi kynslóðum. Hversu hagkvæmar sem nýjar Þjórsárvirkjanir kunna að virðast er raunverulega ekkert sem kallar á slíkar framkvæmdir núna, nema ásókn álversins í orku á útsöluverði. Virkjanakosturinn er til staðar fyrir afkomendur okkar ef raunverulega þarf á að halda. Bændum bjóðast peningar láti þeir lönd sín og eignir af hendi til Landsvirkjunar en það getur verið mikið bráðræði. Þeim sem unna sveitinni sinni og náttúrunni getur reynst mikið áfall að horfa á eftir landinu hverfa undir lón. Við íbúar á Fljótsdalshéraði, sem fylgdumst með drekkingu landsins undir Hálslón, getum vitnað þar um. Það er okkar von að slík valdníðsla gagnvart náttúru landsins eigi aldrei eftir að endurtaka sig. Almenningur í þessu auðuga landi hlýtur nú að grípa í taumana til að stöðva þá eyðileggingu á náttúru landsins sem stjórnvöld boða með áframhaldandi stóriðjuuppbyggingu næstu ára.

Höfundur er verkamaður og nemi.

Höf.: Arinbjörn Þorbjörnsson