SKÁKVIÐBURÐIR af ýmsu tagi hafa farið fram í höfuðstað Norðurlands, Akureyri, síðustu daga og vikur. Hinn 11. mars sl. varð Gylfi Þórhallsson Hraðskákmeistari Akureyrar 2007 en á hæla hans komu Þór Valtýsson sem varð í öðru sæti en þar á eftir komu þeir Tómas Veigar Sigurðsson og Smári Ólafsson. Fimm dögum eftir hraðskákmótið hélt Skákfélag Akureyrar konukvöld föstudaginn 16. mars sl. þar sem forseti Skáksambands Íslands, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, flutti erindi. Stigahæsta skákkona landsins Lenka Ptácníková var á staðnum og gátu allar konur 16 ára og eldri mætt og teflt nokkrar skákir eftir fyrirlesturinn.
Degi eftir þetta fór fram Íslandsmótið í stúlknaflokki á grunnskólaaldri þar sem keppt var í tveimur aldursflokkum, annars vegar í flokki 12 ára og eldri og hins vegar í flokki 11 ára og yngri. Alls mættu níu stúlkur til leiks í hvorn flokk og þar á meðal margar stúlkur frá Grenivík og Akureyri. Reykvíska mærin Sigríður Björg Helgadóttir sló öllum öðrum keppendum við í eldri flokknum en Sólrún Sesselja Haraldsdóttir frá Akureyri varð hlutskörpust í þeim yngri. Staða efstu keppenda í eldri flokki varð þessi:
1. Sigríður Björg Helgadóttir
8 vinningar af 9 mögulegum.
2.–3. Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir og Tinna Kristín Finnbogadóttir 7½ v.
4. Jóhanna Björg
Jóhannsdóttir 6½ v.
5. Ulker Gasanova 5½ v.
Hallgerður náði öðru sætinu eftir að hafa borið sigur úr býtum í tveggja skáka einvígi gegn Tinnu Kristínu. Staða efstu keppenda í yngri flokknum varð þessi:
1. Sólrún Sesselja Haraldsdóttir
9 vinninga af 9 mögulegum.
2. Hulda Rún Finnbogadóttir 8 v.
3.–4. Hildur Berglind Jóhannsdóttir og Viktoría Sól Birgisdóttir 6½ v.
5. Auður Snjólaug Aradóttir 4½ v.
Hildur Berglind fékk bronsið eftir að hafa lagt Viktoríu að velli í einvígi. Tefldar voru 15 mínútna skákir en Skákfélag Akureyrar sá um framkvæmd mótsins. Skákstjórar voru Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Gylfi Þórhallsson og Tómas Veigar Sigurðsson. Nánari upplýsingar um mótið er að finna á www.skak.is.
Reykjavíkurmót grunnskólasveita
Reykjavíkurmót grunnskólasveita fór fram í húsakynnum Taflfélags Reykjavíkur fimmtudaginn 15. mars sl. þar sem 13 sveitir mættu til leiks. A-sveit Laugarlækjaskóla stóð uppi sem sigurvegari með miklum yfirburðum en alls fengu Norðurlandameistararnir í Laugarlækjaskóla 27 vinninga af 28 mögulegum. Lokastaða efstu sveitanna varð annars þessi:1. Laugarlækjaskóli A-sveit
27 vinninga af 28 mögulegum.
2. Rimaskóli A-sveit 21 v.
3. Laugarlækjaskóli B-sveit 18 v.
4.–5. Húsaskóli A- og B-sveit 16 v.
6. Rimaskóli C-sveit 15½ v.
Mótið var haldið í samvinnu ÍTR og Taflfélags Reykjavíkur og var Soffía Pálsdóttir frá ÍTR mótsstjóri en skákstjórar voru Ólafur H. Ólafsson og Guðni Stefán Pétursson. Nánari upplýsingar um mótið er að finna á www.skak.is.
Skákmót öðlinga
Hið vinsæla Skákmót öðlinga, sem haldið er fyrir 40 ára og eldri, hefst í húsakynnum Taflfélags Reykjavíkur í Faxafeni 12 kl. 19.00 miðvikudaginn 21. mars næstkomandi. Tefldar verða sjö umferðir eftir svissnesku kerfi og verður umhugsunartími 90 mínútur á alla skákina auk 30 sekúndna viðbótartíma á leik. Teflt verður einu sinni í viku, alltaf á miðvikudögum, og fer sjöunda og lokaumferðin fram 2. maí nk. en mótinu verður slitið með hraðskákmóti og verðlaunaafhendingu viku síðar. Nánari upplýsingar um mótið er að finna á www.skak.is en hægt er að skrá sig til leiks með því að hafa samband við Ólaf S. Ásgrímsson í síma 8955860.Helgi Áss Grétarsson (daggi@internet.is)