María J. Gunnarsdóttir er tæknifræðingur að mennt og hefur starfað hjá samtökum veitufyrirtækja Samorku fyrir vatnsveitur síðastliðin fimmtán ár.

María J. Gunnarsdóttir er tæknifræðingur að mennt og hefur starfað hjá samtökum veitufyrirtækja Samorku fyrir vatnsveitur síðastliðin fimmtán ár. Hún tók meistarapróf í umhverfisfræðum við Háskóla Íslands árið 2005 og var meistararitgerð hennar um neysluvatnsgæði og vatnsvernd á Íslandi. María er gift Jóhanni Bergmann verkfræðingi og á tvö börn og fjögur barnabörn.

María J. Gunnarsdóttir er tæknifræðingur að mennt og hefur starfað hjá samtökum veitufyrirtækja Samorku fyrir vatnsveitur síðastliðin fimmtán ár. Hún tók meistarapróf í umhverfisfræðum við Háskóla Íslands árið 2005 og var meistararitgerð hennar um neysluvatnsgæði og vatnsvernd á Íslandi. María er gift Jóhanni Bergmann verkfræðingi og á tvö börn og fjögur barnabörn.

Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, stendur fyrir ráðstefnu um Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna um neysluvatn og frárennsli á Alþjóðadegi vatnsins 22. mars. Þróunarsamvinnustofnun Íslands, Rauði kross Íslands, Hjálparstarf kirkjunnar og Íslenska vatnafræðinefndin koma einnig að ráðstefnunni, sem er haldin í Orkuveituhúsinu, Bæjarhálsi 1 í Reykjavík og hefst kl. 13.

"Af um 6 milljörðum jarðarbúa hefur 1,1 milljarður manna ekki aðgang að öruggu vatni og 2,6 milljarðar ekki aðgang að viðunandi frárennslisaðstöðu. Verst er ástandið í þróunarríkjunum í Afríku sunnan Sahara og víða í Asíu og þá sýnu verst í dreifbýli," segir María J. Gunnarsdóttir, einn skipuleggjenda ráðstefnunnar. "Enn hafa þó 140 milljónir af 877 milljónum Evrópubúa ekki vatn í hús og meira en 41 milljón Evrópubúa hefur ekki aðgang að öruggu vatnsbóli."

Árið 2000 settu Sameinuðu þjóðirnar þúsaldarmarkmið um að minnka fátækt, hungur, sjúkdómsáþján, skort á menntun og misrétti í heiminum: "Eitt af markmiðunum er að fækka um helming fyrir árið 2015 þeim sem ekki hafa aðgang að hreinu vatni og lágmarks hreinlætisaðstöðu, en þetta markmið er nátengt öllum hinum," segir María. "Það að hafa ekki aðgang að hreinu vatni eykur líkur á dauða vegna sjúkdóma sem berast með vatni. Árlega deyja 1,8 milljónir barna í þriðja heiminum, nærri 5.000 börn á dag, vegna mengaðs vatns og lélegrar hreinlætisaðstöðu. Það að hafa aðgang að öruggu og heilnæmu vatni og hreinlætisaðstöðu minnkar barnadauða umtalsvert, og eru dæmi um að barnadauði hafi minnkað um 70% þar sem endurbætur hafa verið gerðar á aðgengi að vatni og frárennsli."

Þá tekur það mikinn tíma að sækja vatn langar leiðir: "Vatnssöfnunin lendir oftast á konum og stúlkum og minnkar möguleika á skólagöngu stúlkubarna sem aftur eykur misrétti kynjanna," segir María, og bætir við að Íslendingar hafi af mikilli reynslu og þekkingu að miðla í þessum efnum, líkt og fram muni koma á ráðstefnunni.

Dagskrá ráðstefnunnar og skráning er á www.samorka.is/dagurvatnsins.