ANNA Björg Björnsdóttir varð á dögunum fyrsta knattspyrnukonan úr Fylki sem leikur með A-landsliði Íslands.

ANNA Björg Björnsdóttir varð á dögunum fyrsta knattspyrnukonan úr Fylki sem leikur með A-landsliði Íslands. Anna Björg var valin í landsliðið sem tók þátt í Algarve-bikarnum í Portúgal og hún fékk nóg að gera í fyrstu landsliðsferðinni því hún var í byrjunarliði í þremur af fjórum leikjum Íslands á mótinu.

Anna Björg er 25 ára gömul en hún lék með Fylki í 1. deild þegar hún var 17 ára gömul, árið 1999, og skoraði þá 12 mörk. Hún lék síðan með Þrótti í nokkur ár en sneri aftur til Fylkis þegar meistaraflokkur var endurvakinn hjá félaginu og var í liðinu sem vann sig upp í úrvalsdeildina og hélt síðan sæti sínu þar á síðasta ári.

Anna Björg var heiðruð af félagi sínu fyrir þennan stóra áfanga og það voru þær Jóhanna Breiðdal og Guðrún Hjartardóttir úr meistaraflokksráði kvenna sem afhentu henni stóran blómvönd.