"ÉG hélt fyrir nokkrum vikum að við værum komnir ofan í vaskinn og það ætti bara eftir að taka tappann úr og skola okkur niður. Það breyttist síðan allt til hins betra hjá okkur. Léttleikinn og gleðin hefur verið okkar aðalsmerki að undanförnu og ég ætla að fara inn í klefa á eftir og ræða við strákana og spyrja þá hvort við ætlum okkur ekki að fara alla leið. Ég veit hvert svarið verður," sagði Páll Axel Vilbergsson, fyrirliði Grindavíkur, eftir 97:81 sigur liðsins gegn Skallagrím í Borgarnesi í gær.
Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson
seth@mbl.is
Grindavík vann þar með rimmuna, 2:1, í átta lið úrslitum og mætir grannaliðinu Njarðvík í undanúrslitum en allir leikirnir í þessari viðureign unnust á útivelli.
Það var greinilegt frá upphafsmínútum leiksins að Grindvíkingar voru léttir, hressir og kátir. Skot þeirra fóru flest ofan í og Jonathan Griffin, bandarískur leikmaður í liði Grindavíkur, fór á kostum í fyrri hálfleik þar sem hann skoraði 16 stig og alls 28 stig í leiknum. "Hann naut þess bara að ég var í svo strangri gæslu og það var enginn að dekka hann," sagði Páll Axel og hló þegar hann var spurður að því hvort Griffin væri ekki frábær leikmaður. Gott svar frá fyrirliðanum og greinilegt að menn þar á bæ taka sig ekki of alvarlega. "Við erum með gott lið og það vita allir hvað þarf að gera til þess að ná árangri. Ég hlakka til þess að mæta Njarðvík í næstu umferð og þar getum við haldið áfram að skemmta okkur," sagði Páll Axel sem skoraði 15 stig í leiknum. Hlutverk hans hefur breyst í undanförnum leikjum þar sem hann þarf að leika meira undir körfunni í stöðu kraftframherja. "Ekkert vandamál þar á ferðinni. Þetta eru allt stöður sem ég hef leikið áður og við sköpum andstæðingum okkar ný vandamál með þessari leikaðferð."
Allt á suðupunkti
Leikurinn í Borgarnesi var góð skemmtun þar sem að heimamenn náðu að minnka munin í 1 stig um miðjan 4. leikhluta, 72:71, en Grindavík náði mest 22 stiga forskoti í fyrri hálfleik. Allt var á suðupunkti í "Fjósinu" á þeim tímapunkti en þriggja stiga karfa frá Páli Axel Vilbergssyni þaggaði niður í stuðningsmönnum Skallagríms um stund, 79:73, og aðeins um 3 mínútur eftir af leiknum.
Valur var ósáttur
Valur Ingimundarson, þjálfari Skallagríms, var afar ósáttur við hve sjaldan Darrell Flake, miðherji liðsins, fékk að fara á vítalínuna í leiknum. "Svei mér þá, ég held að það sé alltaf verið að breyta þessum blessuðu reglum í körfuboltanum. Ég hélt að svona varnarleikur væri bannaður en það virðist ekki vera," sagði þjálfarinn en hann var reiðubúinn að lesa íslenskum dómurum pistilinn skömmu eftir leikinn. "Ætli ég láti það ekki bíða betri tíma en það getur verið erfitt að vera "litla" landsbyggðarliðið í svona leikjum. Ég hef kynnst því frá fleiri hliðum."Skallagrímsmenn reyndu allt hvað þeir gátu á lokamínútum leiksins að komast yfir en það gekk fátt upp í sóknarleiknum. Jovan Zdravevski náði sér ekki á strik í sókninni og munar um minna í slíkum leik.
Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindavíkur, brosti breitt í leikslok.
"Ég held að þetta geti varla verið betra. Að vinna Skallagrím tvívegis í röð á útivelli í úrslitakeppninni. Það er ekkert leyndarmál að okkar markmið er að vinna Íslandsmeistaratitilinn. Til þess þurfum við að byrja á því að vinna Njarðvík í undanúrslitunum og miðað við leikina tvo sem við höfum leikið gegn þeim í vetur verða þetta spennandi viðureignir. Eina vandamálið er að það eru þrjú önnur lið sem ætla sér einnig að vinna titilinn en ég er sannfærður um að við getum farið alla leið," sagði Friðrik. Hann tók við þjálfun Grindvíkurliðsins með skömmum fyrirvara sl. haust eftir að nafni hans Friðrik Ingi Rúnarsson tók við starfi framkvæmdastjóra körfuknattleikssambandsins.
Friðrik tók þá umdeildu ákvörðun fyrir nokkrum vikum að láta bandaríska/portúgalska miðherjann Calvin Clemmons fara frá liðinu og töldu margir að það væri galin hugmynd að fara í úrslitakeppnina án hans. "Já, ég tók áhættuna. Satt best að segja þá hefur andrúmsloftið í herbúðum liðsins lagast heilmikið eftir þessa breytingu. Leikmaðurinn var hérna á Íslandi á allt öðrum forsendum en við höfðum gert ráð fyrir. Þetta gekk ekki upp og við getum alveg sagt það að liðið hafi haft gott af þessari breytingu," bætti Friðrik við.
Í hnotskurn
» Skallagrímur lék í fyrsta sinn til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í fyrra gegn Njarðvík. Þar hafði Njarðvík betur.» Grindvíkingar hittu úr 10 af 17 þriggja stiga skotum sínum í leiknum og vítanýting liðsins var 81%.
» Borgnesingar hittu aðeins úr 7 af alls 28 þriggja stiga skotum sínum.