Pálmi Guðmundsson fæddist í Bæ, Árneshreppi í Strandasýslu, 7. júní 1934. Hann lést á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi að morgni mánudagsins 5. mars. .

Pálmi var jarðsunginn frá Fossvogskirkju í Reykjavík 14. mars sl.

Pálmi, minn kæri bróðir og vinur, nú er komið að kveðjustund um sinn. Margs er að minnast frá liðnum æviárum og allt eru það góðar minningar sem ylja manni um hjartarætur.

Okkur er einkar minnisstæð ferð sem við áttum saman árið 2000 um Austurland, þar voru á ferð bæjarstrákarnir með konum sínum. Skoðaðar voru sveitir Austurlands og gengið var á fjöll, þar á meðal fórum við að Stóruurð við Dyrfjöll en sá staður er mjög mikilfenglegur til skoðunar. Þegar komið var í bústað að kvöldi áttum við notalegar stundir saman, dagurinn yfirfarinn, og næsti dagur skipulagður.

Pálmi átti einkar auðvelt með að afla sér vina og var því oftast mikil gleði í kringum hann. Pálmi lagði mikla rækt við sína sveit, var ávallt reiðubúinn að leggja sveitinni og sveitungum það lið sem hann gat.

Hann var á margan hátt mikill listamaður í sér og kom það vel fram í öllum hans verkum. Hann hafði næmt auga fyrir náttúrufegurð, það sýna bæði ljósmyndir og kvikmyndir sem hann tók. Kvikmyndin Fjallaferðir sem hann skilur eftir sig ber þess glöggt vitni, hann samdi einnig lögin sem hljóma í þeirri mynd. Pálmi hafði gaman af dansi, var góður dansmaður svo eftir var tekið. Einnig var hann mikill félagsmálamaður og var formaður félags Árneshreppsbúa um mörg ár og var gerður heiðursfélagi fyrir nokkrum árum. Hann ræktaði garðinn sinn vel, var fjölskyldumaður góður og ræktarsamur við ættingja og vini.

Ég veit að hann átti margt óunnið sem hann langaði að gera þegar nægur tími virtist framundan, en skjótt skipast veður í lofti, það þekkjum við Strandamenn vel.

Illvígur sjúkdómur sótti hann heim, sem hann tókst á við af miklu æðruleysi. Pálmi minn, það er mikill söknuður í hugum okkar en við vitum að okkar kæri bróðir, Hjalti, tekur á móti þér og þið eruð eflaust farnir að gantast saman eins og áður var.

Hvíl þú í friði, elsku vinur, það er mikil eftirsjá að svo góðum dreng.

Elsku Lilja, Fríða, Hrund, Hörður, tengdabörn og barnabörn, okkar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar. Megi minningin um góðan dreng ylja ykkur um ókomna tíð.

Ykkar vinir

Jón og Hjördís

Kveðja frá Félagi Árneshreppsbúa

Enginn á að baki fleiri vinnustundir fyrir Félag Árneshreppsbúa en Pálmi Guðmundsson frá Bæ. Hann sat í stjórn félagsins frá 1974 til 1998, þar af sem formaður frá 1978 til 1997. Á þeim tíma gekk félagið í gegnum súrt og sætt enda kostar það sífellt meiri útsjónarsemi með hverju árinu að halda úti átthagafélagi. Pálmi hafði yfir útsjónarsemi að ráða ásamt gríðarlegum metnaði fyrir hönd félagsins. Þar af leiðandi stóð það af sér breytingar þjóðfélagsins. Metnaður Pálma fyrir hönd félagsins smitaðist út til félagsmanna á stjórnarárum hans og hefur haldist allar götur síðan enda er svo komið að félagsmenn átthagafélagsins eru nú um 1.000 og fer fremur fjölgandi en hitt. Pálmi var aldrei langt undan þótt hann ætti ekki lengur sæti í stjórn og hvenær sem var gátu eftirmenn hans sótt ráðleggingar og aðstoð til Pálma. Hann var vakinn og sofinn yfir velferð félagsins til síðasta dags og kom á aðalfundi og árshátíð félagsins áratugum saman. Pálmi var mikilvægur hlekkur í keðju félagsins og hans var sárt saknað á síðasta aðalfundi félagsins í nóvember sl. er hann átti ekki heimangengt vegna veikinda en sendi fundarmönnum kveðjur og hvatningu til dáða.

Eftir að Pálmi hætti í stjórn Félags Árneshreppsbúa var einróma samþykkt að gera hann að heiðursfélaga. Pálmi var svo sannarlega ekki sestur í helgan stein. Á þeim árum tók við vinna við þrekvirki Pálma, kvikmyndina Fjallaferðir í Árneshreppi. Mynd þar sem Pálma gengur um áhugaverða staði í Árneshreppi, sveitinni sem stóð alltaf nærri hjarta hans og fáir þekkja betur. Að baki myndarinnar, sem kom út fyrir nærri tveimur árum, sagðist Pálmi eiga um 800 vinnustundir en við sem þekktum hann vitum að þær voru mun fleiri. Hverjum þeim sem myndina skoðar má vera ljóst að baki henni liggur óþrjótandi áhugi á að kynna fyrir fólki þá mörgu kosti sem bjóðast til útivistar í þessari fögru sveit við nyrsta haf. Myndin ber metnaði, dugnaði og atorku Pálma glöggt vitni og heldur nafni hans hátt á lofti um ókomin ár.

Að leiðarlokum þakkar Félag Árneshreppsbúa Pálma mikið og fórnfúst starf áratugum saman sem aldrei verður fullmetið. Lilju og fjölskyldu óskum við blessunar Guðs og huggunar. Minning um góðan dreng lifir.

Kristmundur Kristmundsson, formaður.

Það var alltaf eitthvað svo heiðskírt yfir Pálma. Ekki aðeins var hann alltaf glaður og hlýr heldur klæddist hann iðulega bláu, og þannig lifir minningin um þennan hrausta Hornstrandamann, sem var alltaf áhugasamur um alla hluti og tók mikinn þátt í lífi fjölskyldunnar og okkar allra. Gleðin í kringum Pálma var ekki síst sú hvað hann gerði Lilju frænku glaða, hvort sem var í hversdeginum eða skemmtanalífinu, en það stunduðu þau stíft – til að dansa. Ferðalög voru einnig líf hans og yndi og þar tók hann myndir sem hann var fús að sýna, þó aldrei dytti honum í hug að troða neinu uppá fólk. Sjálfsagt er hann fjarstaddur á þeim flestum eins og háttur er ljósmyndara en það kemur ekki í veg fyrir að mynd hans mun lifa með okkur hinum sem minnumst hans með söknuði.

Við vottum Lilju frænku og öðrum aðstandendum innilega samúð.

Bryndís og Úlfhildur Dagsdætur.

Ekki kom á óvart fregnin um andlát Pálma frænda míns. Hann var búinn að heyja langt og erfitt stríð við miskunnarlausan sjúkdóm.

Pálmi var fæddur í Bæ í Árneshreppi og ólst þar upp. Uppvöxtur hans var eins og gerðist á sveitabæjum, að vera þátttakandi í almennum sveitastörfum þess tíma. Snemma hleypti hann heimdraganum, lauk námi í járnsmíði, og vann við það sína starfsævi. Þó það atvikaðist svo, að ævistarf hans yrði ekki á heimaslóð, var hann alla tíð bundinn átthögunum, og mátti til sanns vegar færa, að hann færi aldrei alfarinn. Æskuheimili hans stóð í Bæ, þar bjuggu foreldrar hans Jensína Óladóttir og Guðmundur P. Valgeirsson fram í háa elli og síðan Hjalti bróðir hans og kona hans Guðbjörg Þorsteinsdóttir. Hann batt mikla tryggð við heimilið í Bæ og kom til sumardvalar ásamt konu sinni, Lilju Þorleifsdóttur, flest sumur.

Pálmi var mikill náttúrunnandi, gekk um fjöll og firnindi, tók mikið af myndum.

Það sem uppúr stendur þegar hann er allur, er óþreytandi elja hans að halda til haga öllu sem varðaði byggð og búsetu í, að fornu og nýju, Árneshreppi, ásamt því að sýna náttúrufegurð heimasveitar sinnar. Ekki verður það talið frekar upp hér, en allir þeir, sem láta sig slíkt varða standa í þakkarskuld við hann að leiðarlokum.

Pálmi var ævinlega glaðlegur í viðmóti og hafði jafnan spaugsyrði á vörum.

Ég kveð þennan frænda minn með þakklátum huga, og mætti framlag hans verða einhverjum hvatning til að taka upp þráðinn þar, sem frá var horfið.

Ég sendi eiginkonu hans, dætrum, bróður og öðrum nánum skyldmennum hans innilegar samúðarkveðjur

Góður drengur er fallinn frá.

Gunnsteinn Gíslason.

Elsku Pálmi okkar.

Það er ótrúlega sárt að kveðja þig og við söknum þín, en við munum alltaf minnast þess hvað þú varst okkur góður. Það eru margar minningarnar sem streyma fram í hugann, alltaf gastu brosað og hrósað okkur, meira segja þegar þú varst orðinn svona veikur þá hélstu því áfram. Þú varst þvílík hetja og barst þig alltaf svo vel, svo rosalega jákvæður, hlýr og umhyggjusamur alltaf.

Við fáum að láni nokkrar línur frá ömmu til að kveðja þig með:

Blunda vinur blítt og rótt,

því beði yfir þínum

blíðir englar blaka í nótt

björtum vængjum sínum.

(Sigríður Þórðardóttir.)

Elsku Lilla, þú ert líka þvílík hetja og þið öll kæra frændfólk okkar, hafið staðið þétt við bakið á Pálma, eins og hann sagði sjálfur fyrir hálfum mánuði, vakin og sofin eruð þið svo sannarlega betri en enginn og gott að eiga ykkur að.

Við hugsum til ykkar.

Kær kveðja,

Alexander og Hrönn.

Það er mikil sorg að kveðja tengdaföður minn hann Pálma. Hann var mikill persónuleiki sem ávallt gaf mikið af sér. Ljúfur og blíður en á sama tíma sterkur og ákveðinn þegar á þurfti að halda. Það var fyrir um tólf árum að ég var formlega kynntur fyrir tengdaföður mínum honum Pálma og þau Lilja konan hans tóku svo sannarlega vel á móti mér og buðu mig velkominn í fjölskylduna.

Pálmi var ávallt uppfullur af þeim eldmóði sem einkennir athafnaskáld en á sama tíma var hann hógværðin uppmáluð. Hann sameinaði áhugamál sín á einstakan hátt en ljósmyndun, fuglar og náttúran voru honum ávallt ofarlega í huga. Hann ferðaðist um allt land á Rússanum og gekk á fjöll og tók afburðafallegar myndir sem hann hafði einstaklega gaman af að sýna vinum og vandamönnum. Barnabörnin fóru í ófáar ferðir með honum og Lilju og fengu að sjá og upplifa náttúruna á einstakan hátt.

Strandirnar elskaði Pálmi af öllu hjarta og vann ötullega fyrir félag Árneshreppsbúa. Hann sameinaði ást sína á heimahögunum og myndatökum þegar hann hellti sér út í framleiðslu á tveimur heimildarmyndum um mannlíf í Árneshreppi ásamt félögum sínum í Félagi Árneshreppsbúa. Þegar Pálmi fór á eftirlaun hvarflaði ekki að honum annað en að framleiða heimildarmynd um fjallaferðir á Ströndum og nýtti í það hreint frábærar myndir sem hann hafði tekið á ótalmörgum ferðum sínum.

Það er sárt að kveðja og sérstaklega þegar óvæginn sjúkdómur tekur ástvin alltof snemma frá okkur. Við búum þó að öllum minningunum sem eru undantekningarlaust góðar minningar um einstakan mann sem var búinn miklum mannkostum og sá fegurðina í mannlífinu og náttúrunni hvar sem hann kom, hvort sem það var á Ströndunum eða í Kína.

Halldór Már Sæmundsson.

Pálmi Guðmundsson var húsvörður í Blikahólum 2 þegar ég flutti þar inn fyrir mörgum árum. Hann var mjög góður og yndislegur í alla staði og hugsaði svo vel um þá sem eiga hér heima.

Alltaf þegar ég þurfti einhverja hjálp að skipta um perur og fleira var hann tilbúinn að hjálpa mér. Síðast fyrir jólin þegar hann var orðinn veikur kom hann og hjálpaði mér að setja upp jólaseríuna.

Ég sakna hans mikið og sendi Lilju innilegar samúðarkveðjur.

Rós María (Didda).