HEIMILISLAUSIR tengja tannheilsu virðingu og finnst að þeir vaxa sem manneskjur eftir tannviðgerðir. Þetta eru niðurstöður nýrrar doktorsritgerðar sem forskning.no greinir frá.

HEIMILISLAUSIR tengja tannheilsu virðingu og finnst að þeir vaxa sem manneskjur eftir tannviðgerðir. Þetta eru niðurstöður nýrrar doktorsritgerðar sem forskning.no greinir frá.

Ritgerðin er eftir Patriciu De Palma sem lauk doktorsgráðu sinni frá Karolinska Institutet í Svíþjóð. Hún segir heimilislausa tengja tilfinningar á borð við virðingu við góða tannheilsu og með því að gera þeim auðveldara að hirða um tennur sínar gæti það stuðlað að þolanlegra lífi hjá þeim. Í rannsókn De Palma var tannheilsa 147 heimilislausra einstaklinga skoðuð sérstaklega. Í ljós kom að þeir höfðu aðeins 18 tennur að meðaltali sem er átta færri en hjá meðaljóninum. Sjö af hverjum tíu áttu ekki tannbursta og oft voru tennurnar í svo slæmu ásigkomulagi að þær þurfti að fjarlægja. Fjölmargir áttu í vandræðum með að tyggja með þeim afleiðingum að erfitt var fyrir þá að neyta matar.

De Palma tók ítarleg viðtöl við hina heimilislausu til að kynna sér hugmyndir þeirra um tannhirðu og tannheilsu. Viðtölin fóru fram bæði fyrir og eftir að þeir fóru til tannlæknis. Í ljós koma að tannlæknirinn lagfærði fleira en bara tennur viðkomandi. "Margir sem höfðu misst tennur greindu frá því að við það hefði sjálfsmynd þeirra breyst. Þeim leið eins og þeir hefðu verið aflimaðir en eftir tannlæknisheimsóknina fannst þeim þeir hafa vaxið sem manneskjur og að þeir væru orðnir venjulegri," útskýrir De Palma.

Þó að allir í Svíþjóð eigi rétt á tannlæknaþjónustu telur De Palma að heimilislausir séu í raun útilokaðir frá henni. "Svíar hafa heimsins bestu tannlæknaþjónustu en í raun bara fyrir þá sem geta borgað," segir hún. "Við það má ekki una. Við þurfum að breyta tryggingakerfinu þannig að enginn verði útundan þegar kemur að tannheilsu."