<strong>Riff-rildi í Ráðhúsinu</strong> Kjartan Valdemarsson verður allt í öllu í kvöld; höfundur tónlistarinnar, píanóleikari og stjórnandi. Tónleikarnir bera yfirskriftina Riff-rildi.
Riff-rildi í Ráðhúsinu Kjartan Valdemarsson verður allt í öllu í kvöld; höfundur tónlistarinnar, píanóleikari og stjórnandi. Tónleikarnir bera yfirskriftina Riff-rildi.
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is "ÞAÐ er ekkert sving í þessu og ekki djass; þetta er ekki hefðbundin stórsveitatónlist," segir Kjartan Valdemarsson píanóleikari um tónlistina sína sem Stórsveit Reykjavíkur frumflytur í Ráðhúsinu kl.

Eftir Bergþóru Jónsdóttur

begga@mbl.is

"ÞAÐ er ekkert sving í þessu og ekki djass; þetta er ekki hefðbundin stórsveitatónlist," segir Kjartan Valdemarsson píanóleikari um tónlistina sína sem Stórsveit Reykjavíkur frumflytur í Ráðhúsinu kl. 21 í kvöld. Hann segir erfitt að lýsa eigin tónlist. "Nútímaleg, tilraunagjörn, aðgengileg, rokkættuð og spennandi, allt í senn," segir hins vegar kollegi Kjartans, stórsveitarfélaginn Sigurður Flosason og tekur fram að tónleikarnir í kvöld verði stórviðburður í íslensku tónlistarlífi.

Kjartan segir að nýja tónlistin sé talsvert byggð á slagverki og trommutöktum. "Í stórsveitatónlist kemur laglínan venjulega fyrst og er svo útsett fyrir sveitina; þá koma sóló, og svo úrvinnslan, þar sem unnið er úr efninu. Ég fór þá leið að byrja þar sem úrvinnslan hefst, þannig að stundum er tónlistin dálítið kaotísk. Sumt af þessu er líkara kammermúsík, og sækir ýmislegt í þá átt." Spurður um hvernig sé að semja fyrir sveit sem hann þekkir segir Kjartan það mjög gott. "Þegar maður hefur unnið með hljóðfæraleikurum eins og sólistunum, Jóel Páls, Sigga Flosa, Kjartani Hákonar og Snorra, þá tekur maður þeirra sterku hliðar með í myndina og hefur þær í huga. Ég er ekki að segja að þetta sé eins og hjá Ellington sem skrifaði fyrir spilara, eins og Johnny Hodges; hann gjörþekkti þá af margra áratuga samvinnu; – en maður hefur það bak við eyrað ef það kemur lýrískur kafli í einhverju lagi, þá hefur maður ákveðinn lýrískan mann í huga."

Sigurður Flosason segir að Stórsveitin hafi ekki spilað neitt þessu líkt áður, og að það sé ekki oft sem sveitin spili heila tónleika með músík eftir eitt tónskáld, og það sé gaman. "Það vita allir sem vilja vita í íslensku tónlistarlífi hverslags snillingur Kjartan er, en fyrir aðra er hann óuppgötvaður demantur. Þótt hann semji og spili gríðarlega mikið, þá hefur hann ekki verið jafn gefinn fyrir að hafa sig í frammi."

Kjartan segir að það hafi verið kaos á fyrstu æfingu þegar allir fengu partana sína. "En svo fór þetta að hljóma, og þá lyftist brúnin á strákunum. Ég reikna með að þetta verði til fyrirmyndar hjá þeim," segir stórsveitarskáldið.

Í hnotskurn
» Kjartan Valdemarsson lauk píanónámi frá Tónlistarskóla FÍH.
» Hann stundaði framhaldsnám í tónlist við Berklee College of Music í Boston.
» Kjartan hefur leikið djass með flestum djasstónlistarmönnum landsins.
» Hann er jafnvígur á poppið og hefur meðal annars leikið með Todmobile.
» Þá hefur hann útsett fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands.
» Kjartan er eftirsóttur stúdíóspilari og hefur einnig starfað í leikhúsunum.
» Um tíma lék Kjartan með einni af fremstu stórsveitum Svíþjóðar: Norbottens Big Banc.