Skúli Eggert Þórðarson
Skúli Eggert Þórðarson
Í KVÖLD rennur út frestur sem almenningur hefur til að skila af sér skattframtölum.

Í KVÖLD rennur út frestur sem almenningur hefur til að skila af sér skattframtölum. Það hefur færst mjög í vöxt að fólk skili inn rafrænt í gegnum Netið og að sögn Skúla Eggerts Þórðarsonar ríkisskattstjóra er búist við að um 90% landsmanna nýti sér Netið við skattaskil í ár.

Um 30 þúsund manns höfðu skilað skattframtölum síðdegis á mánudag en á skattagrunnskrá eru rúmlega 240 þúsund manns. Á þessum tölum sést að enn kjósa margir að sækja um frest til að skila framtalinu en það er gert í gegnum Netið á slóðinni www.skattur.is.

Þessi auknu skil í gegnum Netið hafa að sögn Skúla gengið að mestu vel en þó komu upp smávægilegir örðugleikar í ár varðandi eitt eyðublað er sneri að hlutabréfakaupum. Þótt álagið sé jafnan mikið á starfsfólk ríkisskattstjóra á þessum árstíma fylgir því hagræðing að svo stór hluti skilanna fari fram í gegnum Netið. Sem dæmi má nefna að 33 þúsund leiðbeiningarbæklingar voru prentaðir í ár en voru 105 þúsund fyrir fáeinum árum. Enn notast nokkur hópur fólks við gömlu aðferðina og skilar á pappírsformi en í fyrra skiluðu 24 þúsund manns skattframtali með því móti.