Þótt bannað sé að auglýsa tóbak á Íslandi er það alls ekki svo að engar tóbaksauglýsingar komi fyrir augu landsmanna.

Þótt bannað sé að auglýsa tóbak á Íslandi er það alls ekki svo að engar tóbaksauglýsingar komi fyrir augu landsmanna. Tóbaki er iðulega komið fyrir með lævísum hætti í bíómyndum og heilsíðuauglýsingar birtast í erlendum tímaritum, sem flutt eru til landsins, án þess að rönd verði við reist. Einn er sá vettvangur auglýsinga, sem nú virðist hins vegar munu verða úr sögunni að mestu leyti. Ríkissjónvarpið hefur um árabil sýnt frá keppni í Formúlu 1 kappakstri þar sem einhver sagði að gæfi að líta hraðskreiðustu auglýsingaspjöld heims. Bílaframleiðendurnir, sem keppa í Formúlunni, hafa löngum verið gagnrýndir fyrir að auglýsa tóbak á keppnisbílum sínum, en þeir hafa sagt á móti að þeir hefðu einfaldlega ekki efni á að segja auglýsingunum upp. Tekjurnar væru það miklar.

Nú ber hins vegar svo við að aðeins eitt lið er eftir með samning við tóbaksfyrirtæki, Ferrari. Öll hin liðin eru hætt að taka við tóbakspeningum. Og í kappakstrinum í Melbourne um helgina var enginn bíll merktur tóbaksfyrirtæki af þeirri einföldu ástæðu að tóbaksauglýsingar eru bannaðar í Ástralíu.

Ein ástæðan fyrir því að bílaframleiðendur hafa ekki áhyggjur af því að missa tóbakspeninga er vinsældir íþróttarinnar. Lokakappaksturinn í fyrra var í fjórða sæti yfir einstaka íþróttaviðburði hvað fjölda sjónvarpsáhorfenda snerti. Sagt er að aðeins knattspyrna sé vinsælli íþrótt meðal áhorfenda en Formúla 1. Víkverja finnst það reyndar óskiljanlegt og finnst álíka skemmtilegt að fylgjast með bílum aka Ártúnsbrekkuna og sitja og horfa á kappakstursbíla æða fram hjá myndavélum hring eftir hring, en það segir sennilega meira um sérlundaðan skrifara en íþróttina. Kappakstursliðin vona að þessar vinsældir trekki. Þess utan er nú svo komið að auglýsendur eru farnir að auglýsa málstað í staðinn fyrir varning. Það kann að vera mótsagnakennt að spyrða umhverfisvernd við hraðskreiða bíla, en sú er raunin með bílaframleiðandann Honda. Lotus-bíllinn verður í ár aðeins með mynd af jörðunni, en engar auglýsingar.